Lögbann á birtingu byssuteikninga

Hægt er að prenta út byssur. Þessi var gerð árið …
Hægt er að prenta út byssur. Þessi var gerð árið 2013. AFP

Alríkisdómari í Seattle í Bandaríkjunum hefur bannað tímabundið útgáfu hugbúnaðar sem gerir fólki kleift að prenta út skotvopn.

Defence Distributed, hópur sem berst fyrir almennri byssueign, ætlaði að birta þrívíddarteikningar af byssu á netinu í dag. Hópurinn hafði komist að samkomulagi við bandarísk stjórnvöld í júní sem gerði honum mögulegt að birta leiðbeiningarnar opinberlega. 

Átta ríki höfðuðu mál gegn ríkisstjórn Donalds Trump á mánudag til að koma í veg fyrir að samkomulagið næði fram að ganga á þeim grundvelli að hætta stafaði af óskráðum byssum.

Teikningarnar átti að birta í dag en dómarinn setti tímabundið lögbann á birtinguna í gærkvöldi og benti á að þrívíddarprentarar væru m.a. í menntaskólum og víðar. 

Málið verður aftur tekið fyrir 10. ágúst.

Í frétt BBC um málið segir að yfir þúsund manns hafi þegar hlaðið niður teikningum af AR-15-rifflum en slík vopn hafa m.a. verið notuð í mörgum skotárásum í bandarískum skólum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert