„Þögult samkomulag“ um að fækka konum

Shinzo Abe, forsætisráðherra Japans, er væntanlega ekki ánægður með þetta …
Shinzo Abe, forsætisráðherra Japans, er væntanlega ekki ánægður með þetta mál, enda verið talsmaður þess að auka hlut kvenna á vinnumarkaði. AFP

Samfélagsmiðlar í Japan loga, eftir að þarlent dagblað greindi frá því að einn virtasti læknaháskóli landsins hefði með skipulögðum hætti lækkað einkunnir kvenna sem þreyttu inntökupróf, til þess að tryggja að hlutfall kvenkyns læknanema færi ekki yfir 30%.

Stærsta dagblað landsins, Yomiruri Shimbun, greindi frá þessu í dag og hefur eftir ónefndum heimildarmanni að starfsmenn innan læknaháskólans í Tókýó, Tokyo Medical University, hefðu verið með „þögult samkomulag“ um að fækka kvenkyns læknanemum við skólann, sökum þess að þeir óttuðust um að konur sem útskrifuðust sem læknar myndu ekki starfa við fagið eftir útskrift.

„Margir kvenkyns nemendur sem útskrifast hætta að lokum í greininni til þess að eignast börn og ala þau upp,“ hefur dagblaðið eftir heimildarmanni sínum. 

Háskólinn, sem er einkarekinn, er sagður hafa stundað þetta frá því árið 2011 og síðan þá mun hlutfall kvenna sem hefja nám við læknadeildina ekki hafa farið yfir 30%, en hlutfall kvenna var orðið um 40% árið 2010.

Í ár voru nýnemar við læknaháskólann 171 talsins, 30 konur og 141 karlmaður.

Ásakanirnar á hendur skólanum eru sagðar kaldhæðnislegar í ljósi þess að forsætisráðherrann, Shinzo Abe, hefur lagt áherslu á það að auka þátttöku kvenna á vinnumarkaði í Japan, en hún er fremur lítil og hefur löngum verið, sérstaklega er kemur að sérfræðistörfum.

BBC greinir frá því að einungis 12,4% þingmanna, æðstu embættismanna og yfirmanna í Japan séu konur.

Ekki fyrsta vesenið hjá skólanum

Tokyo Medical University er nú þegar til rannsóknar vegna ásakana um að háskólinn hafi mútað háttsettum embættismanni innan menntamálaráðuneytisins í landinu, með því að bjóða syni hans skólavist í stað fjárstyrks frá ráðuneytinu.

Embættismaðurinn, Futoshi Sano, var handtekinn í júlí, en neitar ásökunum. Fréttir herma að kynjamismununin við læknaháskólann hafi komið í ljós í kjölfar rannsóknar yfirvalda á mútumálinu.

Frétt BBC um málið

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert