Þróun kjarnorkuvopna í fullum gangi

Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreu, og Donald Trump Bandaríkjaforseti ræddu afkjarnorkuvopnavæðingu …
Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreu, og Donald Trump Bandaríkjaforseti ræddu afkjarnorkuvopnavæðingu Norður-Kóreu á fundi sínum í júní. Ný skýrsla Sameinuðu þjóðanna sýnir að þróun kjarnorkuvopna er enn í fullum gangi. AFP

Stjórnvöld í Norður-Kóreu halda áfram tilraunum sínum til að þróa kjarnorkuvopn og langdrægar eldflaugar. Refsiaðgerðir hafa litlu sem engu skilað. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri skýrslu sérfræðinga Sameinuðu þjóðanna sem afhentu öryggisráði Sameinuðu þjóðanna skýrslu um niðurstöðurnar í gær.

Í skýrslunni kemur meðal annars fram að útflutningur Norður-Kóreu á kolum, járni, sjávarafurðum og vopnum hafi aukist sem skili stjórnvöldum mörgum milljónum dollara í tekjur. Þá segir í skýrslunni að stjórnvöld hafi fengið aðstoð frá sýrlenskum vopnasala í þeim tilgangi að selja vopn til Jemen og Líbýu. Stjórnvöld í Norður-Kóreu hafa ekki tjáð sig um efni skýrslunnar enn sem komið er.

Donald Trump Bandaríkjaforseti og Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreu, hittust á formlegum fundi í Singapúr í júní þar sem þeir hétu því að vinna að afkjarnorkuvopnavæðingu Norður-Kóreu. Útfærslan hefur hins vegar ekki verið kynnt nánar og nú virðist sem þróun kjarnorkuvopna sé enn í fullum gangi.

Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sagði nýverið að hann væri bjartsýnn á að allri kjarnorkuvopnaframleiðslu í Norður-Kóreu yrði hætt. Pompeo sagði í aðdraganda fundar ríkja í Suðaustur-Asíu (ASEAN) í Singapúr að vinnan væri hafin en mikilvægt væri að ríki heimsins haldi áfram að beita diplómatískum og efnahagslegum þrýsingi gegn Norður-Kóreu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert