Boris gagnrýndur vegna búrkuskrifa

Boris Johnson, fyrrverandi utanríkisráðherra Bretlands og fyrrverandi borgarstjóri Lundúna, sagðist …
Boris Johnson, fyrrverandi utanríkisráðherra Bretlands og fyrrverandi borgarstjóri Lundúna, sagðist ekki hlynntur búrkubanni, en hann teldi klæðnaðinn fáránlegan. AFP

Brandon Lewis, stjórnarformaður breska Íhaldsflokksins, hefur beðið Boris Johnson, fyrrverandi utanríkisráðherra Bretlands, um að biðjast afsökunar á niðrandi skrifum sínum um búrkur.

Boris Johnson skrifaði í baksíðudálk breska blaðsins Daily Telegraph í gær að búrkur væru „fáránlegar“ og„ skrýtnar“ og að konur sem klæddust þeim litu annaðhvort út eins og „póstkassar“ eða „bankaræningjar“.

„Ég er sammála Alistar Burt. Ég er búinn að biðja Boris Johnson um að biðjast afsökunar,“ skrifaði Lewis á Twitter og vísaði þar til gagnrýni Al­ista­ir Burt, sem fer með mál­efni Mið-Aust­ur­landa í breska ut­an­rík­is­ráðuneyt­inu. Burt sagði að hann myndi aldrei tjá sig með þessum hætti enda væru skrifin móðgandi.

Segir Boris afla stuðnings fyrir leiðtogakjör

Sayeeda Hussain Warsi, fyrrverandi stjórnarformaður Íhaldsflokksins, hefur sömuleiðis gagnrýnt Boris og sagt hann lepja upp aðferðafræði Steve Bannons, sem var áður helsti ráðgjafi Dondalds Trump Bandaríkjaforseta.

Konur í búrkum. Mynd úr safni.
Konur í búrkum. Mynd úr safni. AFP

Sagði Warsi að Boris væri að reyna að afla stuðnings yst á hægri vængnum fyrir væntanlegt framboð hans til leiðtoga Íhaldsflokksins. „Múslimakonur ættu ekki að vera pólitískt bardagasvæði fyrrverandi Etona,“ sagði Warsi og vísaði þar til einkaskólans Eton þaðan sem margir stjórnmálamenn Bretlands eru útskrifaðir.

Í dálknum sagðist Boris vera á móti búrkubanni en hann teldi „alveg fáránlegt að fólk færi sjálfviljugt meðal almennings lítandi út eins og póstkassar.“

Meðal þeirra sem lýstu yfir stuðningi við skrif Borisar voru Nadine Dorries, þingmaður Íhaldsflokksins, sem sagði að hann hefði ekki gengið nægilega langt. 

„Allan klæðnað sem konur eru neyddar til að klæðast til að fela fegurð þeirra og sár ætti að banna. Slíkt á sér ekki stað í okkar frjálslynda og framfarasinnaða landi,“ sagði hún.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert