Repúblikanar halda áfram að missa fylgi

Troy Balderson, frambjóðandi repúblikana, í 12. kjördæmi Ohio hélt sigurræðu …
Troy Balderson, frambjóðandi repúblikana, í 12. kjördæmi Ohio hélt sigurræðu sína í nótt. Enn er þó óljóst hver sigraði kosninguna. AFP

Frank Luntz, sérfræðingur á sviði kannana fyrir Repúblikanaflokkinn, segir niðurstöður sérstakra aukakosninga til fulltrúadeildarinnar í 12. kjördæmi Ohio, benda til þess að repúblikanar séu í verulegri hættu á að missa meirihlutann í fulltrúadeild bandaríska þingsins í þingkosningunum í nóvember. Hann sagði niðurstöðurnar þó ekkert hafa með Trump að gera. Þetta kom fram í viðtali BBC World Service við Luntz í dag.

Niðurstöðurnar eru enn ekki skýrar þar sem Troy Balderson, frambjóðandi Repúblikanaflokksins, er með 101.574 atkvæði eða 50,2% og Danny O´Connor, frambjóðandi Demókrataflokksins, er með 99.820 atkvæði eða 49,3% og enn á eftir að telja 3.435 atkvæði. Repúblikanar hafa þó lýst yfir sigri, en samkvæmt kosningalögum Ohio þarf að endurtelja ef munar minna en hálfu prósentustigi milli frambjóðenda, segir í frétt New York Times.

Danny O´Connor, frambjóðandi demókrata.
Danny O´Connor, frambjóðandi demókrata. AFP

Vísbending um slæmt gengi repúblikana

Fram kom í máli Luntz að 12. kjördæmi Ohio hafi verið álitið öruggt repúblikana-kjördæmi og hafa repúblikanar verið þingmenn kjördæmisins í 48 ár af síðustu 50 árum. Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, sigraði í kjördæminu með rúmlega 10 prósentustigum í forsetakosningunum 2016.

„Eins og staðan er núna stefnir í að flokkurinn sigri með innan við 1 prósentustigi. Þetta eru ekki góðar fréttir fyrir repúblikana. Í venjulegum kringumstæðum ætti frambjóðandi flokksins að sigra með 8 til 12 prósentustigum,“ sagði Luntz. „Fráfarandi þingmaður er repúblikani og hann sigraði með um 20 prósentustigum í síðustu kosningum,“ bætti hann við.

Samkvæmt Luntz skiptir ekki máli hver sigrar eftir endanlega talningu, niðurstaðan bendi hvort sem er til þess að Repúblikanaflokkurinn mun eiga erfitt til uppdráttar í þingkosningunum í nóvember og jafnvel geti farið svo að flokkurinn missi meirihlutann.

Stuðningsmenn Donalds Trumps eru ekki hrifnir af frambjóðendum repúblikana.
Stuðningsmenn Donalds Trumps eru ekki hrifnir af frambjóðendum repúblikana. AFP

Repúblikanar ná ekki til stuðningsmanna Trump

„Frambjóðendur flokksins hafa kerfisbundið verið að fá slakari niðurstöðu [í sínum kjördæmum] en Donald Trump fékk í forsetakosningunum og það sem frambjóðendur repúblikana fengu [í síðustu kosningum]. Við erum að tala um allt frá 8 prósentustigum upp í 20 prósentustigum verri niðurstöðu. Þetta er ógnvekjandi þróun fyrir flokkinn,“ sagði Luntz

„Þannig að þú ert að segja að stuðningur við Trump sé að minnka?“ spurði útvarpsmaður BBC. „Nei, þetta hefur ekkert með Trump að gera,“ svaraði Luntz. „Þetta snýr að því hversu óvinsælt þingið er. Repúblikanar eru jafnóvinsælir og demókratar og ósk er meðal kjósenda um breytingar, alveg eins og þegar þeir kusu með breytingum 2016, vilja þeir breytingar 2018. Nú eru repúblikanar við völd í þinginu og það er mjög erfitt að vera ríkjandi afl í þessum kosningum,“ sagði hann.

Í fulltrúadeild bandaríska þingsins sitja 435 þingmenn og hafa repúblikanar 236 kjörna þingmenn og demókratar 193, en 6 sæti eru óskipuð. Í nóvember verður kosið um öll 435 sætin ásamt 33 sæti af 100 í öldungadeild þingsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert