Segir alla orðna þreytta á Trump

Zarif segir Bandaríkin ekki geta komið í veg fyrir viðskipti …
Zarif segir Bandaríkin ekki geta komið í veg fyrir viðskipti Íran með olíu. AFP

Mohammad Javad Zarif, Utanríkisráðherra Íran, segir Bandaríkin ekki geta komið í veg fyrir að Íranar flytji út olíu, líkt og virðist vera markmið Donald Trump bandaríkjaforseta. Zarif segir Trump ekki geta þvingað aðrar þjóðir til að hætta að kaupa olíu frá Íran. BBC greinir frá.

Viðskiptabann Bandaríkjanna gagnvart Íran tók gildi aðfararnótt þriðjudags, en fyrr á þessu ári drógu Bandaríkjamenn sig út úr fjölþjóðlegu samkomulagi sem gert var við Íran árið 2015, um afnám kjarnorkuvopna. Trump hafði áður gagnrýnt samkomulagið harðlega og sagt það einhliða.

Í kjölfar þess að viðskiptabannið var sett á skrifaði Trump færslu á Twitter þar sem hann hótaði þeim þjóðum sem héldu áfram viðskiptum við Íran. Sagði hann að þau ríki sem ættu í viðskiptum við Íran myndu ekki geta átt viðskipti við Bandaríkin.

AFP

Zarif ræddi þessi mál í viðtali í morgun og hæddist jafnframt að Trump og bræðisköstum hans á Twitter, þar sem hann notast við hástafi til að koma orðum sínum betur á framfæri. Zarif nýtti einmitt sjálfur við Twitter til að vekja athygli á máli sínu. Sagði hann bræðisköst forsetans ekki breyta neinu um það að heimurinn væri orðinn langþreyttur á einhliða ákvörðunum Bandaríkjaforseta.

Trump vill gera nýtt samkomulag um afnám kjarnorkuvopna við Íran, en þau ríki sem standa að samkomulaginu sem gert var árið 2015 vilja halda í það. Æðsti yfirmaður utanríkis- og öryggsmála hjá Evrópusambandinu hefur hvatt fyrirtæki innan sambandsins til að virða að vettugi hótanir Trump og taka sjálfstæðar ákvarðnir um viðskiptasamninga sína.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert