Næstu skref vígamanna Ríkis íslams

Mironova segir verulega hættu á að Ríki íslams verði til …
Mironova segir verulega hættu á að Ríki íslams verði til í nýrri mynd ef ekki verður fundin lausn á hvað skal gera við þúsundir liðsmanna þeirra sem enn eru á lífi.

Veruleg hætta er á að Ríki íslams spretti aftur upp í nýrri mynd ef ekki er gripið til aðgerða. Þetta segir Vera Mironova í grein í tímariti NATO. Þá segir hún að fáir erlendir liðsmenn samtakanna hafi lifað af þar sem allmargir þeirra voru drepnir fyrir að reyna að yfirgefa samtökin. Þó eru enn á lífi þúsundir vígamanna og stuðningsmanna samtakanna, annaðhvort í felum eða í fangelsi.

Grein Mironova er byggð á rannsókn hennar sem miðaði af því að kortleggja framtíðarhorfur samtakanna nú þegar þau hafa glatað stöðu sinni í Írak og Sýrlandi.

Hún tók viðtöl við bæði innlenda og erlenda vígamenn samtakanna og  einstaklinga sem aðstoðuðu við að smygla vígamönnum til Mið-Austurlanda. Hennar markmið var að komast að því hver næstu skref þessara einstaklinga verða.

Heittrúuðustu dóu snemma

Stór hluti þeirra sem gengu til liðs við Ríki íslams í þeim tilgangi að deyja í „heilögu stríði“ voru heittrúuðustu stuðningsmennirnir og voru jafnframt drepnir snemma í átökunum. Þeir buðu sig fram í hættulegustu aðgerðirnar, jafnvel þótt það væri ljóst að þeir myndu aldrei snúa aftur.

Þá eru reyndir vígamenn sagðir sýna mikla hollustu gagnvart Ríki íslams og reiðubúnir til þess að berjast þrátt fyrir að engar líkur séu á sigri. Mironova segir frá því að hún hafi rætt við einn slíkan í Sýrlandi í október 2017 og var sá rússneskumælandi frá Kákasus.

Hún spurði hvort hann hefði í huga að flýja þar sem stríðið gengi illa, en hann svaraði því neitandi. Hann hygðist berjast allt fram að endalokum. Endalok vígamannsins komu þó í sömu viku og hún ræddi við hann, þegar hann var drepinn ásamt fjölskyldu sinni í loftárás.

Myrtu alla sem reyndu að flýja

Mironova segir að samtöl hennar við vígamenn og stuðningsmenn Ríki íslams gefa vísbendingu um að ungir hafi fallið í mun meiri mæli en aðrir. Reynsluleysi og dómgreindarbrestur er sagður hafa orðið þeim að bana í bardögunum. Einnig hafa sumir orðið sjálfum sér að bana þegar þeir gerðu mistök við sprengjugerð.

Sumir stuðningsmenn Ríkis íslams voru þó ekki vígamenn. Þó nokkuð var um að einstaklingar seldu allar eigur sínar og lögðu leið sína til „fyrirheitna landsins“ í Sýrlandi með fjölskyldum sínum. Hins vegar hafi komið í ljós þegar til Sýrlands var komið að þau voru föst í harðgerðu og ofbeldisfullu umhverfi með ekkert tengslanet og enga peninga.

Eftir að borgirnar Mosul og Raqqa féllu var eina leiðin burt að láta smygla sér, en það kostaði um 7 til 10 þúsund Bandaríkjadali á mann eða um 750 þúsund til rúmlega einnar milljónar íslenskra króna. Jafnvel þeir sem áttu efni á slíku voru í stöðugri hættu. Sú hætta fólst í að smyglarinn sem samið var við gat verið liðsmaður leynilögreglu Ríkis íslams, eða Amni. Þessir leynilögreglumenn tóku við peningum þeirra sem reyndu að flýja og drápu þá.

Liðsmenn Ríkis íslams tóku af lífi hvern þann andstæðing sem …
Liðsmenn Ríkis íslams tóku af lífi hvern þann andstæðing sem þeir handsömuðu ásamt eigin félagsmönnum sem reyndu að yfirgefa samtökin. AFP

Kallaðir öfgamenn af Ríki íslams

Þeir sem tilheyrðu Ríkis íslams en voru ósammála leiðtogum þess voru álitnir sérstaklega hættulegir fyrir hreyfinguna. Þetta voru mjög heittrúaðir vígamenn sem urðu með tímanum ósáttir við stefnu Ríkis íslams. Þessir einstaklingar létu annaðhvort lífið í fangelsum samtakanna eða voru sendir fremst í víglínuna þar sem hörðustu bardagarnir fóru fram. Var það gert til þess að mæta skorti á mannafla innan samtakanna.

Meðal þessa einstaklinga voru þeir sem Ríki íslams kallaði öfgamenn eða takfir, sem er sérstakt heiti yfir þá múslima sem kalla aðra múslima heiðingja eða kafir. „Öfgamennirnir“ höfðu framið þann glæp að uppnefna leiðtoga Ríkis íslams heiðingja eftir að hafa komist að þeirri niðurstöðu að Ríki íslams uppfyllti ekki draum þeirra um land hinna helgu.

Samkvæmt viðtali við slíkan „öfgamann“ sem komst lífs af, virðist það hafa verið vel þekkt staðreynd að einstaklingar eins og hann voru sendir úr fangelsi fremst í víglínuna í Kobane, Deir ez-Zor og Hama.

Fátækir voru lágt settir vígamenn

Samkvæmt Mironova hefur lágt hlutfall félagsmanna Ríkis íslams lifað af og eru þeir annaðhvort í fangelsi eða í felum. Þá hafa hátt settir einstaklingar innan samtakanna gert sér grein fyrir talsverðum líkum á að verða dæmdir til dauða í Sýrlandi eða Írak ef þeir eru handteknir.

Þeir hafa því annaðhvort reynt að flýja til útlanda eða ákveðið að berjast til dauða. Þeir sem komust undan hafa sagst ekki reiðubúnir til þess að láta handsama sig lifandi.

Fram kemur í samtölum Mironova við einstaklinga í íraska hernum, dómara og lögmenn að félagsmenn Ríkis íslams sem sitja í fangelsi hafi almennt verið lágt settir vígamenn frá Írak sem ýmist gáfust upp eða voru handsamaðir af stjórnvöldum. Þá eru dæmi um að einhver hluti þessara einstaklinga hafi gengið til liðs við Ríki íslams af brýnni nauðsyn, sökum hungurs.

Milljónir lögðu á flótta vegna átakanna í Írak og Sýrlandi.
Milljónir lögðu á flótta vegna átakanna í Írak og Sýrlandi. AFP/BULENT KILIC

Erlendir vígamenn enn hættulegir

Utan Mið-Austurlanda eru erlendir stuðningsmenn samtakanna handteknir á grundvelli hryðjuverkalaga. Hluti þeirra eru miklir stuðningsmenn málstaðarins og sæta meðal annars refsivist fyrir að dreifa áróðri á netinu og hafa milligöngu um að koma vígamönnum á vígvöllinn.

Þrátt fyrir að stór hluti erlendra vígamanna hafi byrjað að yfirgefa samtökin árin 2014 og 2015 eru fáir sem héldu lífi, en stefna Ríkis íslams var að drepa miskunnarlaust alla þá sem reyndu að flýja og fangelsa alla þá sem heyrðust minnast á slík áform.

Fyrrverandi liðsmenn samtakanna sem komust til annarra landa eru álitnir „mjög hættulegir“ og tilheyra þeim hópi Ríkis íslams sem er skilgreindur sem „öfgamenn“.

Þessi fámenni hópur sem komst undan eru vígamenn sem komu víðs vegar að og fóru frá Sýrlandi og Írak á mismunandi stigum átakanna. Þeir fyrstu sem fóru komust undan með talvert magn fjármuna í eigu Ríkis íslams sem var hugsað til vopnakaupa eða aðgerða erlendis. Þá segir einnig að erfitt hafi verið að sannfæra marga um að taka þátt í aðgerðum erlendis þar sem margir töldu réttara að nýta fjármuni innan Ríkis íslams til þess að bæta lífskjör íbúa.

Írakar fögnuðu þegar borgin Mosul féll úr höndum Ríkis íslams.
Írakar fögnuðu þegar borgin Mosul féll úr höndum Ríkis íslams. AFP

Hátt settir áttu greiða leið

Í kjölfar þess að borgin Mosul féll í hendur íraskra stjórnvalda byrjuðu sumir hátt settir einstaklingar innan Ríkis íslams að stinga af með mikið magn af fjármunum samtakanna meðferðis, sem gerði þeim kleift að múta sér leið til annarra landa og kaupa ný skilríki.

Leynilögreglumennirnir sem störfuðu fyrir Ríki íslams áttu einnig greiða leið á flótta, en þeir báru ávallt grímur þannig að aðrir vígamenn og íbúar þekkja þá ekki. Þeir höfðu einnig aðgang að fjármunum samtakanna.

Skipuleggja sig í fangelsum

Mironova segir marga innlenda leiðtoga Ríkis íslams enn á lífi og að þeir gangi frjálsir. Í ljósi þess að þeir búa yfir fjármunum samtakanna munu þeir geta haldið þeirri stöðu. Á meðan munu almennir innlendir vígamenn, sem yfirvöld þekkja til, þurfa að lifa í felum á landsbyggðinni. Sumir þeirra taka hugsanlega þátt í skæruliðahernaði á meðan fyrrverandi leynilögreglumenn samtakanna geta óáreittir gengið um og jafnvel skipulagt stærri aðgerðir í þéttbýli.

Hátt settir erlendir leiðtogar leynilögreglunnar sem komust úr landi búa yfir yfirgripsmikilli þekkingu og reynslu sem gerir þeim kleift að stofna nýja hópa undir merkjum samtakanna á nýjum stað. Vegna orðspors Ríkis íslams getur vel verið að þessir nýju hópar geti aflað sér nýrra fylgismanna, staðhæfir Mironova.

Sýrlenska borgin Raqqa er illa farin eftir harða bardaga.
Sýrlenska borgin Raqqa er illa farin eftir harða bardaga. AFP

Þá segir Mironova að lögmenn í Írak og Rússlandi hafi upplýst hana um að vígamenn sem sæta fangelsi gætu margir hverjir öðlast frelsi sitt að nýju á næsta áratug. Hún segir fangaverði og lögreglumenn hafa áhyggjur af því að þessum vígamönnum takist að afla nýrra félagsmanna og skipuleggja sig innan fangelsismúranna. Þá bætist við að afkomendur þessara vígamanna munu hafa aldur til þess að taka til vopna þegar vígamennirnir sleppa úr fangelsi.

Þörf á fjölþættum aðgerðum

Fyrrverandi félagsmenn samtakanna sem voru ósammála leiðtogum Ríkis íslams eru mjög skilvirkir í að útskýra fyrir mögulegum nýliðum hvers vegna hið nýja „ríki“ stóðst ekki væntingar, að sögn Mironova. Einnig eru framtíðarhorfur þeirra takmarkaðar þar sem þeir eru í felum oft án persónuskilríkja og tækifæra til þess að afla sér tekna. Í mörgum tilfellum hafa þeir litla menntun og eru vopnuð átök eina sérhæfing þeirra, sem gerir þá sérstaklega eftirsótta í heimi glæpamanna.

Mironova dregur þá ályktun að þörf sé á margþættum aðgerðum til þess að koma í veg fyrir að rísi nýtt Ríki íslams. Meðal slíkra aðgerða segir hún vera að koma í veg fyrir að fyrrverandi liðsmenn samtakanna fái tækifæri til þess að afla nýliða og skipuleggja sig innan fangelsa, efla alþjóðlegt samstarf til þess að skiptast á upplýsingum svo hægt sé að finna vígamenn í felum og koma á skipulögðum aðgerðum til þess að koma þessum einstaklingum aftur inn í samfélagið.

Hún telur einnig mikilvægt að taka á þeim undirliggjandi þáttum sem gerðu það að verkum að þessum einstaklingum hafi þótt Ríki íslams vænlegur kostur. Þá bendir Mironova á lífskjör og mismunun sem dæmi um mögulega orsök þess að Ríki íslams hafi hvatt til vaxtar samtakanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert