Corbyn heiðraði hryðjuverkamann

Skjáskot af myndinni sem breska dagblaðið Daily Mail birti af …
Skjáskot af myndinni sem breska dagblaðið Daily Mail birti af Jeremy Corbyn. Þar tók hann þátt í að heiðra hryðjuverkamann. Sjáskot/Daily Mail

Jeremy Corbyn, formaður Verkamannaflokks Bretlands og róttækur vinstri maður, á í vök að verjast eftir að breska dagblaðið Daily Mail birti af honum ljósmynd þar sem hann sést taka þátt í að heiðra hryðjuverkamann sem stóð að baki morðunum á ellefu ísraelskum íþróttamönnum á ólympíuleikunum í München í Þýskalandi 1972.

Samkvæmt heimildum Daily Mail var myndin tekin árið 2014 í Túnis, ári áður en Corbyn var kjörinn leiðtogi Verkamannaflokksins.

Corbyn hafnaði ásökununum í maí sl. um að hafa tekið þátt í að heiðra hryðjuverkmann og sagðist þá hafa tekið þátt í minningarathöfn fórnarlamba árásar Ísraelshers á Frelsissamtök Palestínu í Túnis árið 1985 þar sem 47 létu lífið. Corbyn segist núna hafa verið viðstaddur athöfnina en ekki tekið þátt í henni.

Jeremy Corbyn, leiðtogi breska Verkamannaflokksins.
Jeremy Corbyn, leiðtogi breska Verkamannaflokksins. AFP

Blaðamenn Daily Mail heimsóttu hins vegar garðinn þar sem athöfnin kom fram og sáu þeir þá að Corbyn stóð ekki við hlið minnisvarðans um fórnarlömb árásarinnar árið 1985 á myndinni heldur við minnismerki eins liðsmanna Svarts september. Átta palestínskir hryðjuverkamenn sem tilheyrðu samtökunum tóku níu ísraelska íþróttamenn í gíslingu á Ólympíuleikunum 1972 og myrtu tvo.

Gíslatakan stóð yfir í 19 klukkutíma og lauk með því að björgunartilraun vesturþýsku lögreglunnar á flugvellinum í München misheppnaðist með þeim afleiðingum að allir gíslarnir níu sem eftir voru létust til viðbótar við þá tvo sem áður voru myrtir. Að auki féllu fimm af mannræningjunum og einn vesturþýskur lögreglumaður.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert