Trump kallar Omarosu herfu

Omarosa Manigault Newman og Donald Trump Bandaríkjaforseti.
Omarosa Manigault Newman og Donald Trump Bandaríkjaforseti. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti hélt í dag áfram að hella sér yfir Omarosu Manigault Newman, fyrrverandi ráðgjafa í Hvíta húsinu og keppanda í raunveruleikaþáttunum Apprentice.

Manigault Newman greindi í gær frá því að hún ætti upptökur af samræðum sínum við forsetann eftir að starfsmannastjóri Hvíta hússins, John Kelly, lét hana taka pokann sinn.

Trump kallaði Omarosu, eins og Bandaríkjamenn kalla hana, „lúsablesa“ á Twitter í gær og í dag hélt hann fúkyrðaflauminum áfram.

„Þegar maður gefur brjáluðum lúsablesa tækifæri og gefur henni vinnu í Hvíta húsinu. Það gekk víst bara ekki upp. Gott hjá Kelly að reka þann hund!“ sagði Trump í færslu sinni. Enska orðið "dog" er þarna notað í niðrandi meiningu, sem útleggja má sem „herfa“ eða „mjög óaðlaðandi kona“.

Upptökur Manigault Newman, sem gefur í dag út bókina Unhinged þar sem hún fjallar um tíma sinn í Hvíta húsinu, þykir einstakt brot á þeim trúnaði sem ríkja á milli forseta og starfsmanna hans.

Manigault Newman útskýrði fyrir fréttastofu CBS-sjónvarpsstöðvarinnar í dag þá ákvörðun sína að taka upp samtölin við Kelly og Trump. „Ég er sú týpa sem passar sjálfa sig og í heimi Trumps ljúga allir,“ sagði hún.

„Allir segja eitt einn daginn og breyta svo frásögn sinni þann næsta. Ég vildi hafa þetta skjalfest, ef til þess kæmi að trúverðugleiki minn væri dreginn í efa.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert