Yfir hundrað leiðarar gegn Trump

Donald Trump hefur kallað fjölmiðla „óvini fólksins“. Á morgun munu …
Donald Trump hefur kallað fjölmiðla „óvini fólksins“. Á morgun munu leiðarahöfundar yfir 100 fjölmiðla gagnrýna orðræðu Trumps gagnvart fjölmiðlum. AFP

Yfir 100 leiðarahöfundar munu sameina krafta sína á morgun þegar umfjöllunarefni leiðara í yfir 100 bandarískum dagblöðum verður gagnrýni á orðræðu Donalds Trump um fjölmiðla.

Ritstjórn fjölmiðilsins Boston Globe á frumkvæðið að framtakinu og óskar eftir að fjölmiðlar sýni samstöðu um að svara forsetanum sem hefur verið óhræddur við að láta skoðun sína á fjölmiðlum í ljós eftir að hann tók við embætti forseta Bandaríkjanna fyrir rúmum tveimur árum. Hugtök eins og falsfréttir (e. Fake news) voru lítt þekkt fyrir forsetatíð hans en eiga nú stóran stóran sess í orðaforða Trump gagnvart fjölmiðlum.

„Skrif okkar verða mismunandi, en við getum sammælst um það að árásir forsetans eru áhyggjuefni,“ segir meðal annars í ákalli Boston Globe. Samtök bandarískra fréttaritstjóra hafa sýnt framtakinu stuðning.

The Boston Globe á frumkvæðið að framtakinu þar sem yfir …
The Boston Globe á frumkvæðið að framtakinu þar sem yfir 100 leiðarahöfundar munu sameina krafta sína og gagnrýna orðræðu Trumps gagnvart fjölmiðlum. AFP

Zeid Raad al-Hussein, fráfarandi mannréttindastjóri Sameinuðu þjóðanna, er meðal þeirra sem hafa tjáð sig um orðræðu Trump gagnvart fjölmiðlum og segir hana ýta undir ofbeldi. Dæmi þessu tengt nefnir hann þegar Trump kallaði fjölmiðla „óvini fólksins“ á fjöldafundi fyrir skömmu. „Slík orðræða jaðrar við hvatningu til beitingar ofbeldis gegn þeim sem starfa við fjölmiðla,“ segir al-Hussein.

Með framtakinu vilja bandarískir fjölmiðla undirstrika mikilvægi fjölmiðlafrelsis og sjálfstæðis fjölmiðla. Fjölmiðlar eru ekki óvinir fólksins og verður myllumerkið #EnemyOfNone notað til að vekja athygli á því að fjölmiðlar eru svo sannarlega ekki óvinir fólksins. 

Frétt The Guardian

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert