Markaðurinn myndi hrynja

Donald Trump Bandaríkjaforseti.
Donald Trump Bandaríkjaforseti. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti telur að efnahagur Bandaríkjanna muni hrynja ef hann verður einhvern tímann ákærður í embætti.

„Ég skal segja þér það, að ef ég verð einhvern tímann ákærður þá held ég að markaðurinn muni hrynja. Ég held að allir yrðu mjög fátækir,“ sagði Trump í sjónvarpsþættinum Fox and Friends.

Forsetinn var að svara spurningu fréttamanns í tilefni þess að fyrrverandi lögmaður hans, Michael Cohen, sagði eiðsvarinn að Trump hafi fyrirskipað honum að fremja glæp með því að brjóta lög um fjármögnun kosningabaráttu.

Trump sagðist einnig í viðtalinu hafa stuðlað að fjölgun starfa í Bandaríkjunum og að landið væri mun verr statt ef Hillary Clinton hefði unnið forsetakosningarnar árið 2016.

„Ég skil ekki hvernig væri hægt að ákæra einhvern sem hefur unnið frábært starf,“ sagði Trump.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert