Öruggast að drekka ekkert

Bjórinn er ekki góður í hófi.
Bjórinn er ekki góður í hófi. AFP

Hver einasti sopi af áfengi er skaðlegur, samkvæmt nýrri og umfangsmikilli rannsókn á skaðsemi áfengis. Í rannsókninni, sem unnin var af sérfræðingum hjá Washington-háskóla, er lagt til að fólk haldi sig alfarið frá neyslu áfengis.

Samkvæmt rannsókninni sem er birt í læknatímaritinu Lancet eru dauðsföll 2,8 milljóna árið 2016 rakin til áfengisneyslu. Það ár var áfengisneysla ein helsta dánarorsök einstaklinga á aldrinum 15 til 49 ára, eða um 20% allra dauðsfalla.

Hingað til hefur því verið haldið fram að eitt til tvö glös af víni eða bjór á dag sé heilsusamlegt. Því er vísað á bug í rannsókninni. „Niðurstöður okkar eru á þá leið að öruggast er að drekka ekkert,“ kom fram í samantekt með rannsókninni, þrátt fyrir að hófdrykkja geti í örfáum tilfellum haft góð áhrif á hjartveika.

Greinendur í Washington-háskóla rannsökuðu áfengisneyslu og heilsufarleg vandamál tengd henni í 195 löndum frá 1990 til 2016. Notuð voru gögn úr 694 rannsóknum til að áætla hversu almenn áfengisneysla var auk gagna úr öðrum 592 rannsóknum til að meta heilbrigðisáhættuna tengda áfengisneyslu. Rannsóknirnar náðu til 28 milljóna.

Samkvæmt rannsókninni drekkur einn af hverjum þremur í heiminum áfengi, eða 2,4 milljarðar. Hlutfallslega drekka flestir í Danmörku eða 95,3% kvenna og 97,1% karla. Fæstir karlar drekka í Pakistan, 0,8% og fæstar konur í Bangladess, 0,3%. 

Aðalhöfundur rannsóknarinnar, doktor Emmanuela Gakidou, segir að herða eigi reglur um sölu áfengis og að skattar á því eigi að vera háir. „Það fylgir því mikil heilbrigðisáhætta að neyta áfengis,“ segir Gakidou.

Nánar má lesa um rannsóknina hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert