Uber-bílstjóri skaut mann í sjálfsvörn

Út úr pallbílnum kom maður sem veifaði einhverju í hendinni …
Út úr pallbílnum kom maður sem veifaði einhverju í hendinni og sagði „Veistu að ég er með byssu?“ Ljósmynd/Skjáskot

Þegar Uber-bílstjórinn Robert Westlake var að aka konu á vegum Flórída í Bandaríkjunum svínaði pallbíll fyrir hann svo hann þurfti að nauðhemla. Út úr pallbílnum kom maður sem veifaði einhverju í hendinni og sagði „Veistu að ég er með byssu? Viltu að ég skjóti þig?“ Westlake var fljótur að bregðast við og skaut manninn, sem lést.

Atvikið náðist á myndskeið og það má sjá hér að neðan:


CNN greinir frá því að skömmu áður hafi maðurinn, Jason Boek, átt í skilaboðasamskiptum við kærustu sína, en sambandið var stormasamt og hélt hann að umrædd kærasta sæti í bíl Westlake og ákvað að elta þau. Vegna ógnandi tilburða hans skaut Westlake hann í sjálfsvörn, en síðar kom í ljós að Boek hafði haldið á farsíma en ekki byssu.

Westlake er enginn venjulegur Uber-bílstjóri, en hann hefur leyfi til starfa sem vopnaður öryggisvörður og hafði nýlokið þjálfun í lögregluskólanum.

Hann hefur verið lögregluyfirvöldum samvinnuþýður við rannsókn málsins, en í Flórída er fólk sem bregst við í sjálfsvörn ekki sekt og verður Westlake því ekki sóttur til saka vegna morðsins á Boek.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert