Hótar að ganga úr WTO

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna. AFP

Forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, hefur hótað því að draga Bandaríkin út úr Alþjóðaviðskiptastofnuninni (WTO) ef stofnunin breytir ekki starfsháttum sínum gagnvart Bandaríkjunum.

„Ef þau taka sig ekki á þá fer ég út úr WTO,“ sagði Trump í viðtali við Bloomberg News í gær.

BBC fjallar um málið

Markmið Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar er að afnema viðskiptahindranir og auka þar með frelsi í alþjóðlegum viðskiptum, með alþjóðlega fríverslun að leiðarljósi. Enn fremur hefur stofnunin það hlutverk að leysa úr viðskiptadeilum sem koma upp milli aðildarríkja.

Trump hefur þrýst á breytingar varðandi verndartolla og segir að Bandaríkin fái ekki sanngjarna meðferð hjá stofnuninni.

WTO var stofnuð árið 1994 á grundvelli hins almenna samnings um tolla og viðskipti (GATT), sem samið var um við lok Úrúgvæviðræðanna. Stofnunin myndar sameiginlegt þak yfir alþjóðlega samninga eins og GATT-samninginn, almenna samninginn um þjónustuviðskipti o.fl.

Að sögn Trump er samkomulagið frá 1994 um að stofna WTO sennilega versti viðskiptasamningur sögunnar þrátt fyrir að Bandaríkin hafi haft betur í einhverjum dómsmálum undanfarin ár.

Finnur Magnússon, hæstaréttarlögmaður og aðjunkt við lagadeild Háskóla Íslands, fjallar um fríverslunarsamninga í grein í Morgunblaðinu.

„Á undanförnum misserum hefur komið í ljós stefnubreyting bandarískra yfirvalda varðandi alþjóðleg viðskipti. Yfirlýsingar sem hófust með gagnrýni í garð Mexíkó og Kína hafa nú þróast frekar. Gagnrýni Bandaríkjastjórnar beinist nú gegn helstu bandamönnum Bandaríkjanna, s.s. Kanada, Evrópusambandinu og Japan, og hefur leitt til álagningar verndartolla á vörur innfluttar m.a. frá þessum löndum. Hér kveður við nýjan tón sem mun að öllum líkindum leiða til grundvallarbreytinga á meira en hálfrar aldar fyrirkomulagi í alþjóðaviðskiptum. Í þessari grein verður fjallað um þessar breytingar og hvernig mál kunna að þróast á næstu misserum.

Ein afleiðing verndartolla Bandaríkjastjórnar er málarekstur á hendur Bandaríkjunum hjá Alþjóðaviðskiptastofnuninni í Genf (e. World Trade Organization). Fjölmargir aðilar hafa nú virkjað málsmeðferðarreglur viðskiptastofnunarinnar í ágreiningsmálum við Bandaríkin, þ.á m. Sviss, Noregur, Evrópusambandið, Kanada, Mexíkó og Kína. Úrlausn hvers ágreiningsmáls hefst með samningalotu þar sem aðilar reyna að sætta ágreining. Ef sættir takast ekki er skipuð gerðarnefnd (e. panel) sem er ætlað að skoða nánar og ákveða hvort verndartollar Bandaríkjanna séu í samræmi við meginreglur Alþjóðasamnings um tolla og vöruviðskipti (e. General Agreement on Tariffs and Trade, GATT). Fari ágreiningsmálin svo langt má gera ráð fyrir því að niðurstaða fáist hjá gerðarnefndinni innan níu mánaða. Að því loknu er unnt að áfrýja niðurstöðu gerðarnefndarinnar til sérstakrar áfrýjunarnefndar (e. appellate body) og ætti niðurstaða hennar að liggja fyrir um þremur mánuðum síðar.

Þótt ágreiningsmálin séu ekki langt komin í formlegu ferli er ljóst að Bandaríkin munu byggja varnir sínar einkum á því að heimilt sé að leggja á verndartolla á grundvelli þjóðaröryggis. Í því samhengi vísa Bandaríkin til meginreglu XXI. gr. GATT-samningsins sem mælir fyrir um að ekkert í samningnum skuli takmarka svigrúm samningsaðila til að gæta öryggishagsmuna sinna (e. essential security interests). Almenn samstaða hefur verið meðal samningsaðila GATT-samningsins að nota ekki þessa undanþágureglu frá meginreglum GATT-samningsins til að takmarka frjáls vöruviðskipti. Vekur það því furðu að Bandaríkin, einn áhrifamesti aðili GATT- og WTO-samninganna, skuli nú vísa í þessa undanþágureglu. Þeir aðilar sem fyrir verndartollum verða, nánar tiltekið Kanada, Evrópusambandið og Mexíkó, hafa almennt séð ekki verið taldir ógna þjóðaröryggi Bandaríkjanna,“ segir Finnur meðal annars í grein sinni.

Grein Finns geta áskrifendur Morgunblaðsins lesið hér

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert