Biður Ariana Grande afsökunar á káfi

Mörgum þótti biskupinn full ágengur. Einhverjir töldu svipbrigði söngkonunnar gefa …
Mörgum þótti biskupinn full ágengur. Einhverjir töldu svipbrigði söngkonunnar gefa til kynna að henni liði óþægilega. AFP

Biskupinn sem leiddi útför Arethu Franklin í gær hefur beðið Ariana Grande afsökunar á því að hafa káfað á söngkonunni uppi á sviði. Ljósmyndir sýna biskupinn halda þéttingsfast utan um Grande og að því er virðist þrýsta fingrum sínum að brjósti hennar.

„Ég myndi aldrei snerta brjóst nokkurrar konu af ásettu ráði. Hugsanlega fór ég yfir strikið og var of vinalegur eða náinn,“ sagði hann við AP-fréttastofuna og bætti við: „En ég endurtek, ég biðst afsökunar.“

Biskupinn segist hafa faðmað alla listamenn sem voru viðstaddir útförina, bæði karla og konur.

Glöggir netverjar hófu að deila myndum frá athöfninni og meintu káfi þegar Grande stóð upp til að syngja lagið (You Make Me Feel Like) A Natural Woman. Margir töldu biskupinn halda full ofarlega utan um Grande og einhverjir töldu svipbrigði hennar benda til þess að henni liði óþægilega.

Margir netverjar telja að biskupinn hafi farið yfir strikið.
Margir netverjar telja að biskupinn hafi farið yfir strikið. Skjáskot/Twitter

Meint káf biskupsins var þó ekki það eina sem hann þurfti að biðja Grande afsökunar á. Fyrr í athöfninni sagði hann nefnilega brandara sem mörgum þótt óviðeigandi.

„Þegar ég sá nafn Ariana Grande á listanum hélt ég að þetta væri nýr réttur á Taco Bell,“ sagði hann við söngkonuna og uppskar hlátur nokkurra viðstaddra.

Eftir athöfnina baðst hann þó afsökunar á brandaranum og sagði hann ósmekklegan.

„Ég persónulega og af einlægni bið Arianda Grande, aðdáendur hennar og allt rómanska samfélagið afsökunar,“ sagði biskupinn.

„Þegar þú leiðir athöfn í níu klukkustundir þá reynir þú að lífga upp á samkomuna með því að spauga inni á milli,“ bætti hann við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert