„Þýddi endalok innri markaðarins“

Michel Barnier, aðalsamningamaður ESB.
Michel Barnier, aðalsamningamaður ESB. AFP

Michel Barnier, aðalsamningamaður Evrópusambandsins vegna útgöngu Bretlands úr sambandinu, segir að Bretar geti ekki valið það besta sem fylgir því að taka þátt í innri markaði þess en sleppt því sem þeir vilja ekki. Slíkt myndi þýða endalok hans.

Þetta er haft eftir Barnier á fréttavef breska dagblaðsins Daily Telegraph en ummælin lét hann falla í samtali við þýska dagblaðið Frankfurter Allgemeine Zeitung. Með ummælum sínum var Barnier að vísa til tillögu Theresu May, forsætisráðherra Bretlands, að samningi við Evrópusambandið sem kennd hefur verið sveitasetur hennar Chequers.

Önnur ríki myndu vilja eins samning

„Bretar hafa val. Þeir geta verið áfram á innri markaðinum eins og Noregur, sem er ekki hluti af Evrópusambandinu, en þá yrðu þeir að samþykkja allt regluverkið sem á við um hann og greiða fjárframlag til evrópskrar samstöðu,“ sagði Barnier og ennfremur:

„En ef við leyfum Bretum að velja hvaða reglum þeir ætla að fylgja hefði það alvarlegar afleiðingar. Alls kyns ríki utan Evrópusambandsins gætu krafist þess að við gerðum sama samning. Það þýddi endalok innri markaðarins og sambandsins.“

Þá sagði Barnier að það væri „miklu auðveldara“ ef Bretland gerðist aðili að tollabandalagi Evrópusambandsins, en bresk stjórnvöld hafa hafnað því og einnig því að landið gerist aðili að EES-samningnum utan sambandsins líkt og Noregur og Ísland.

Bretum býðst fríverslunarsamningur

Barnier greindi frá því nýverið að hann væri reiðubúinn að bjóða Bretum betri samning en nokkuð annað ríki utan Evrópusambandsins hefði boðist til þessa. Ekki hefur verið upplýst enn hvers konar samning hann var að vísa til með þeim ummælum.

Fyrr á árinu sagði Barnier einnig að Bretum stæði til boða fríverzlunarsamningur þar sem engir tollar yrðu í viðskiptum á milli Bretlands og Evrópusambandsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert