May: Starfa fyrir rússneska herinn

Alexander Petrow og Ruslan Boshirov ferðuðust frá Moskvu til Gatwick-flugvallar …
Alexander Petrow og Ruslan Boshirov ferðuðust frá Moskvu til Gatwick-flugvallar í London á rússneskum vegabréfum nokkrum dögum áður en árásin átti sér stað. AFP

Mennirnir tveir sem grunaðir eru um að hafa eitrað fyrir Sergei Skrípal og dóttur hans Júlíu starfa fyrir leyniþjónustu rússneska hersins (GRU). Þetta er meðal þess sem kom fram í máli Theresu May, forsætisráðherra Bretlands, þar sem hún ávarpaði breska þingið í dag.

Guardian greinir frá því að May hafi sagt að það liggi ljóst fyrir að stjórnvöld í Moskvu hafi veitt leyfi fyrir árásinni, en hún ávarpaði þingið í kjölfar þess að lögregla og saksóknarar gerðu opinber nöfn tveggja manna sem grunaðir eru um að hafa staðið að árásinni.

11.000 klukkustundir af myndefni rannsakaðar

Alexander Petrow og Ruslan Boshirov ferðuðust frá Moskvu til Gatwick-flugvallar í London á rússneskum vegabréfum nokkrum dögum áður en árásin átti sér stað. Að sögn lögreglu og saksóknara liggja fyrir næg sönnunargögn í málinu til þess að ákæra og sakfella mennina tvo.

Theresa May ávarpaði breska þingið vegna málsins í dag.
Theresa May ávarpaði breska þingið vegna málsins í dag. AFP

May greindi frá því í ávarpi sínu að með starfi 25 rannsóknarlögreglumanna hefði tekist að bera kennsl á þá grunuðu, en lögreglan skoðaði alls 11.000 klukkustundir af efni úr öryggismyndavélum og tók 1.400 skýrslur.

Rannsókn leyni- og öryggisþjónustu Bretlands á því hvað stæði að baki árásinni leiddi svo í ljós að mennirnir tveir starfa fyrir leyniþjónustu rússneska hersins.

Hertar aðgerðir gegn rússneskum stjórnvöldum

Þrátt fyrir að ekki verði gerð tilraun til þess að fá mennina tvo framselda frá Rússlandi sagði May að breska ríkið myndi gera allt sem í þess valdi stæði til að hafa hendur í hári þeirra og sækja þá til saka í Bretlandi, skyldu þeir nokkurn tíma ferðast út fyrir rússneska lögsögu.

„Við höfðum rétt fyrir okkur í mars þegar við sögðum að rússneska ríkið bæri ábyrgð. Nú höfum við borið kennsl á þá sem áttu hlut að máli og getum gengið enn lengra,“ sagði May. Hún boðaði hertar aðgerðir gegn rússneskum stjórnvöldum, sem hún sagði sífellt reyna að grafa undan öryggi landsins og bandamanna þess.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert