Tveir verða ákærðir í Skrípal-málinu

Novichok-taugaeitur var notað í árásinni.
Novichok-taugaeitur var notað í árásinni. AFP

Nöfn tveggja rússneskra ríkisborgara, sem grunaðir eru í máli þar sem eitrað var fyrir Skrípal-feðginunum Sergei og Júlíu, hafa verið gerð opinber. Til stendur að gefa út ákæru á hendur þeim Alexander Petrov og Ruslan Boshirov vegna árásarinnar sem átti sér stað í Salisbury á Englandi í mars. BBC greinir frá.

Mennirnir tveir eru báðir um fertugt og eru grunaðir um að hafa notast við fölsk nöfn. Lögreglan í Bretlandi kveðst hafa næg sönnunargögn gegn mönnunum til þess að leggja fram ákæru og sakfella þá fyrir árásina.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu lentu mennirnir á Gatwick-flugvelli 2. mars og gistu á City Stay Hotel í austurhluta London áður en þeir fóru til Salisbury 4. mars, þar sem útihurð Skripal var menguð með Novichok-taugaeitri.

Á meðal þess sem mennirnir tveir, Petrov og Boshirov, eru ákærðir fyrir er að leggja á ráðin um að myrða Sergei Skrípal, morðtilraun gegn Sergei Skrípal, Júlíu Skrípal og Nick Bailey, notkun og varsla á Novichok og að hafa valdið Júlíu Skrípal og Nick Bailey alvarlegu líkamstjóni.

Lögregluþjónninn Nick Bailey veiktist af eitrinu þegar hann sinnti máli Skripal-feðginanna. Öll þrjú komust lifandi frá árásinni.

Þau Dawn Sturgess og Charlie Rowley komust í snertingu við Novichok nokkrum mánuðum seinna eftir að Rowley fann ilmvatnsglas með eitrinu. Hann lifði atvikið af en Sturgess lést á sjúkrahúsi. Breska lögreglan hefur staðfest að málið tengist máli Skripal-feðginanna og sætir það sömu rannsókn. Ólíklegt þykir að árásinni hafi viljandi verið beint gegn Sturgess og Rowley, en gáleysisleg meðferð eitursins varð til þess að þau komust í snertingu við það.

Að sögn saksóknara í málinu verður ekki óskað eftir framsali mannanna tveggja frá Rússlandi, þar sem rússnesk stjórnvöld framselja ekki ríkisborgara sína.

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, heldur erindi á breska þinginu síðar í dag þar sem hún mun upplýsa þingmenn um stöðu mála.

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert