Ulf Kristersson krefst afsagnar Löfvens

Ulf Kristersson ávarpar stuðningmenn á kosningavöku Moderaterna á Scandic Continental-hótelinu …
Ulf Kristersson ávarpar stuðningmenn á kosningavöku Moderaterna á Scandic Continental-hótelinu í miðborg Stokkhólms. AFP

Ulf Kristersson, formaður hægriflokksins Moderaterna, krefst þess að Stefan Löfven, formaður Sósíaldemókrata, segi af sér sem forsætisráðherra strax að loknum kosningum.

Það verði hlutskipti Sósíaldemókrata næstu fjögur árin að veita ríkisstjórn hægrimanna aðhald úr minnihluta. Þetta kom fram í ræðu Kristerssons á kosningavöku Moderaterna í kvöld.

Kristersson sagðist bera mikla virðingu fyrir Löfven og að hann hefði ekkert á móti honum sjálfum; hins vegar yrði Löfven að hlusta á vilja kjósenda.

„Rauðgræna bandalagið bauð ekki fram saman, það vildi ekki starfa saman, og jafnvel þótt það vildi það þá hefði það ekki stuðning sænsku þjóðarinnar,“ sagði Kristersson. Með rauðgræna bandalaginu á hann við Sósíaldemókrata og Græningja, sem mynda ríkisstjórn, auk Vinstriflokksins, sem ekki á sæti í ríkisstjórninni en ver hana vantrausti.

Löfven og Kristersson háðu „einvígi“ á sjónvarpsstöðinni TV4 í gærkvöldi.
Löfven og Kristersson háðu „einvígi“ á sjónvarpsstöðinni TV4 í gærkvöldi. AFP

Ummæli Kristerssons um að flokkarnir þrír vilji ekki starfa saman eru ekki úr lausu lofti gripin. Vinstriflokkurinn hefur aldrei fengið sæti í ríkisstjórn en þó jafnan stutt ríkisstjórnir Sósíaldemókrata. Flokkurinn hefur þótt of róttækur til stjórnarsetu, bæði vegna kommúnískrar fortíðar sinnar og andstöðu við aðild að Evrópusambandinu.

Meiri athygli vekur þó að nú, þegar 85% atkvæða hafa verið talin, skuli rauðgrænu flokkarnir þrír, sem Kristersson segir ekki njóta stuðnings þjóðarinnar, hafa 40,6% atkvæða, en hægribandalagið, sem Kristersson leiðir, 40,3% atkvæða.

Ríkisstjórn hægribandalags með stuðningi S?

Kristersson telur engu að síður rétt að hægribandalagið myndi næstu ríkisstjórn. Ljóst er að sú ríkisstjórn yrði minnihlutastjórn og þyrfti að vera varin af öðrum flokkum. Jimmie Åkesson, formaður Svíþjóðardemókrata, hefur boðið Kristersson til samtals um myndun ríkisstjórnar en ætla má að hann vilji veita ríkisstjórn hægribandalagsins stuðning.

Kristersson virtist þó reyna að leita stuðnings Sósíaldemókrata í ræðunni. Hann sagði mikilvægt að Sósíaldemókratar og hægribandalagið gætu sammælst um stór mál sem hefðu þýðingu til framtíðar. Það hefði sér fundist fyrir kosningar og það fyndist sér enn.

Ólíkt vinstriflokkunum hefur bandalag hægriflokka, Alliansen, haldið sameiginlega kosningafundi.
Ólíkt vinstriflokkunum hefur bandalag hægriflokka, Alliansen, haldið sameiginlega kosningafundi. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert