Til Salisbury að skoða dómkirkjuna

Mennirnir kváðust vera þeir Ruslan Boshirov og Alexander Petrov.
Mennirnir kváðust vera þeir Ruslan Boshirov og Alexander Petrov. AFP

Mennirnir tveir sem grunaðir eru um að hafa eitrað fyrir Sergei Skripal og dóttur hans, Yuliu, komu fram í viðtali á rússneskri ríkissjónvarpsstöð í dag þar sem þeir sögðust hafa heimsótt Salisbury til þess að skoða dómkirkjuna. Guardian greinir frá.

Mennirnir kváðust vera þeir Ruslan Boshirov og Alexander Petrov, og líkjast mjög þeim mönnum sem breska lögreglan grunar um að hafa komið Novichok-taugaeitri fyrir á útihurð Sergei Skripal í Salisbury í mars. Í viðtalinu kváðust þeir hafa komið til Englands sem ferðamenn og heimsótt Salisbury vegna þess að vinir þeirra höfðu mælt með borginni.

Breska lögreglan segir að nöfn mannanna séu ekki raunveruleg og hefur hún sönnunargögn undir höndum þess efnis að þeir starfi fyrir leyniþjónustu rússneska GRU-hersins.

Í viðtalinu viðurkenndu mennirnir að þeir hefðu báðir verið í Salisbury og að þetta væru þeir sem sæjust á myndum úr öryggismyndavélum sem lögreglan gerði opinberar. „Vinir okkar höfðu lengi ráðlagt okkur að heimsækja þessa frábæru borg,“ sagði Alexander Petrov. Boshirov bætti við að þeir hefðu heimsótt dómkirkjuna og verið sérlega hrifnir af háum turnum hennar og klukkunni sem var sú fyrsta sinnar tegundar í heiminum.

Boshirov sagði einnig að mögulegt væri að þeir hefðu gengið í námunda við hús Skripal, en að þeir vissu ekki hvar það væri.

Talið er að viðtalið renni enn frekari stoðum undir afneitun rússneskra stjórnvalda á málinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert