Veit ekki um fjölda hælisleitenda

Frá Kaupmannahöfn.
Frá Kaupmannahöfn. mbl.is/GSH

Danska lögreglan veit ekki hvar 2.835 hælisleitendur, sem neitað var um hæli í Danmörku, eru niður komnir. Talið er að hluti þeirra gætu enn verið í landinu samkvæmt nýrri skýrslu sem unnin var fyrir lögregluna og fjallað hefur verið um í dönskum fjölmiðlum.

Fram kemur í frétt Thelocal.dk að umræddir einstaklingar gætu annað hvort verið enn í Danmörku, öðru ríki sem þeir geta ferðast til eða snúið aftur til heimalands síns. Lögreglan telur að meirihlutinn hafi yfirgefið Danmörku á undanförnum þremur árum.

Þingmaður Jafnaðarmannaflokksins og talsmaður flokksins í dómsmálum, Trine Bramsen, hefur kallað eftir frekari svörum í kjölfar umfjöllunarinnar um skýrsluna. „Þeir gætu auðveldlega verið að vinna svart í Danmörku og grafa undan vinnumarkaðinum.“

Þingmaðurinn hefur kallað eftir því að lögreglan leggi aukna áherslu á að hafa uppi á fólkinu og óskað eftir frekari upplýsingum frá dómsmálaráðherranum, Inger Støjberg.

Þingmaðurinn Naser Khader, talsmaður Íhaldsflokksins í dómsmálum, hefur ekki sömu áhyggjur. Erfitt sé að vera í Danmörku án skilríkja og aðeins brot af þessum hópi væri sennilega enn í landinu. Hafa þyrfti hins vegar uppi á mögulegum glæpamönnum og öfgamönnum væru einhverjir slíkir á meðal þessara einstaklinga.

Þá segir í fréttinni að lögreglan viti ekki hvar aðrir 2.729 einstaklingar, sem sótt hafa um hæli í Danmörku en ekki fengið niðurstöðu í mál sín, væru niður komnir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert