Tveir látnir í árás í Þrándheimi

Norska lögreglan.
Norska lögreglan. AFP

Íbúar norsku borgarinnar Þrándheims eru slegnir miklum óhug eftir að tveir táningar voru myrtir í íbúð við Prinsens gate í miðbænum þar í borg upp úr klukkan 17 að norskum tíma, 15 að íslenskum. Lögregla var kölluð á vettvang og reyndist meintur árásarmaður þá enn á staðnum og lagði þegar á flótta.

Lögreglumaður skaut manninn í fótinn við eftirförina og náðist þar með að taka hann höndum við aðalbrautarstöðina þaðan sem honum var komið á sjúkrahús.

Ekki er vitað um ástand þess sem særðist í árásinni né hver kveikjan að henni var en allir sem við sögu komu í málinu eru, og voru, á táningsaldri.

Ebbe Kimo í aðgerðastjórnstöð lögreglunnar í Þrándheimi segir í samtali við norska ríkisútvarpið NRK að þrjár manneskjur hafi verið í íbúðinni þegar lögregla kom á vettvang. Hann sagði einnig við Adresseavisen að meintur árásarmaður hafi ekki notað skotvopn við ódæðið heldur einhvers konar áhald.

Lögregla rannsakar nú vettvanginn og hefur Prinsens gate verið lokað að hluta meðan rannsókn stendur yfir. Við þetta hafa strætisvagnasamgöngur í borginni að miklu leyti gengið úr skorðum enda um eina af aðalgötunum að ræða. Rannsóknardeild innri málefna lögreglunnar (n. Spesialenheten for politisaker) hefur verið tilkynnt um að lögregla hafi beitt skotvopni við handtökuna.

Fleiri fréttir norskra fjölmiðla af málinu:

Frá VG

Frá Aftenposten

Frá Dagbladet

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert