Ekki fleiri morð síðan 2008

Borgarstjóri Lundúna, Sadiq Khan, ætlar að horfa til þess hvernig …
Borgarstjóri Lundúna, Sadiq Khan, ætlar að horfa til þess hvernig yfirvöld Glasgow hafa tekist á við sína ofbeldisglæpi.

Memunatu Warne, 46 ára tveggja barna móðir í Woolwich í London, varð hundraðasta fórnarlamb í morðöldu sem virðist ganga yfir borgina á þessu ári. Ekki hafa fleiri morðmál komið inn á borð lögreglu í tíu ár og hafa borgaryfirvöld af þessu stórar áhyggjur. Borgarstjóri Lundúna, Sadiq Khan, lýsti því yfir í fyrradag að takast ætti á við ofbeldið eins og alvarlegan sjúkdóm sem væri að sýkja samfélagið. Í yfirlýsingu borgarstjórans vísaði hann til þess hvernig yfirvöld Glasgow hafa tekist á við sína ofbeldisglæpi með góðum árangri og sagði sérstakan starfshóp lögreglunnar í ofbeldismálum (e. Violence Reduction Unit, VRU) ætla að nota sömu nálgun þar sem forvarnir skipta ekki síst máli.

Ekki eru þó allir sannfærðir um að þetta plan gangi eftir þar sem nánari útfærslu þykir vanta. Borgarstjórinn segir að ætlunin sé meðal annars að ráðast í forvarnir og að skólar, heilbrigðiskerfið, lögreglan og fleiri stofnanir verði virkjaðar í að stíga af meiri ákveðni og fyrr inn í ofbeldismál sem ljóst er að gætu endað með mannsláti.

Alvarlegra heimilisofbeldi

En hvernig á að vera hægt að sjá fyrir morð og hvernig eiga þessar stofnanir að geta séð hvar þarf að stíga fyrr inn í? Stór hluti þeirra sem látið hafa lífið eru fórnarlömb heimilisofbeldis og gengjastríða. Heimilisofbeldi er vaxandi áhyggjuefni þar sem dauðsföllum tengdum fjölskylduerjum hefur fjölgað mikið, raunar eru fórnarlömb í þeim aðstæðum jafnmörg og þau sem látast í bardögum glæpagengja að því er kemur fram í úttekt Guardian. 15 fórnarlambanna hafa verið konur, sex karlmenn. Á þessu sviði sjá yfirvöld borgarinnar fyrir sér að hægt væri að stíga fyrr inn í aðstæður.

Glasgow fyrirmynd

London horfir til Glasgow því sú borg og Skotland í heild hefur náð frábærum árangri í baráttu gegn ofbeldisverkum. Árið 2005 sýndi skýrsla Sameinuðu þjóðanna að ofbeldi í Skotlandi var mest meðal allra þróaðra ríkja heims og voru þá þrefalt meiri líkur á að ráðist væri á mann í Skotlandi en Bandaríkjunum að því er Times greindi frá á sínum tíma.
Tíu árum síðar hefði varla getað verið ólíkara umhorfs hjá Skotum og morðum hefur fækkað um helming og hefur VRU í Skotlandi unnið þar mesta þrekvirkið, ekki síst með sérstöku VRU-prógrammi. Þar hefur fræðsla í skólum og samstarf við félagsþjónustu og heilsugæslu verið áberandi. Ofbeldismenn sem náð hafa beinu brautinni hafa haldið fyrirlestra og borgaryfirvöld stigið inn í aðstæður ungs fólks sem er í áhættu vegna félagsskapar og aðstæðna, boðið störf og aðstoð og kortleggja einnig þá sem eru líklegir til að fremja voðaverk og bjóða fram aðstoð að fyrra bragði. Þeir sem lokið hafa afplánun vegna ofbeldisbrota eiga einnig auðveldara með að koma út í samfélagið að nýju þar sem þéttara net stuðnings bíður þeirra. Þeim eru boðin störf, aðstoð með húsnæði og ýmiss konar þjálfun og rannsóknir hafa sýnt að þeir eru ólíklegri til að brjóta af sér aftur. BBC fjallaði ítarlega um þennan viðsnúning í vikunni.

Hnífar koma oftar við sögu

Það var ekki nú í ár sem morðum snarfjölgaði svo. Síðasta ár var slæmt en þá voru framin 117 morð í borginni og höfðu þá ekki verið jafnmörg í 10 ár. Á sama tíma í fyrra höfðu 99 morð verið framin, einu færri en nú.

Breskan lögreglan hefur aldrei lagt hald á jafnmikið magn af …
Breskan lögreglan hefur aldrei lagt hald á jafnmikið magn af hnífum og á þessu og síðasta ári, flestir í eigu ungs fólks.



Hnífaárásir koma við sögu í þremur af hverjum fimm manndrápum á árinu, sama og var uppi á teningnum í Glasgow þegar verst lét þar. Þannig hafa 64 látist af völdum hnífstungna nú í ár og á síðasta ári létust 80 manns af sömu orsökum. Banvænar hnífstungur eru samanlagt fleiri í London en í öllu Englandi og Wales, samkvæmt tölum bresku lögreglunnar.
Martin Hewitt, aðstoðarlögreglustjóri Lundúna, sagði á ráðstefnu sem haldin var í sumar um hnífaárásir að þær væru mun ofbeldisfyllri en áður. Fyrir fimm árum hefði hann aðeins getað lýst hnífstungumálum sem minni háttar en í dag væru fórnarlömb árásanna margstungin, með stórum hnífum.

Faðir ungs drengs sem lenti í það alvarlegri árás í London að fjarlægja þurfti annan fótinn á honum, segir í viðtali við BBC í vikunni að það að bera stóra hnífa og sýna ofbeldisfulla hegðun sé nánast í tísku hjá ákveðnum hópum ungs fólks í borginni og þar ríki ákveðin lögleysa, ungmennin virði ekki lög, hlusti ekki á foreldra og ekkert traust sé milli foreldra og barna.
Fyrsti fjórðungur ársins hefur verið verstur í London og að meðaltali voru þrjú morð framin í hverri viku. Hefði sú þróun haldið áfram væru fórnarlömbin orðin 180 núna, sem væri það versta frá árinu 2005 að því er kemur fram í Guardian.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert