Það sem konurnar sögðu

Jeff Flake, öldungadeildarþingmaður frá Arizona.
Jeff Flake, öldungadeildarþingmaður frá Arizona. AFP

Vettvangurinn var sláandi, tvær konur komu í veg fyrir að lyftan, sem Jeff Flake, öldungadeildarþingmaður repúblikana frá Arizona, var í, færi af stað án þess að hann hlýddi á það sem þær höfðu að segja.

„Björguðu konurnar í lyftunni Bandaríkjunum?“ spyr Emmy Bengtson, ráðgjafi demókrata, á Twitter. Ekki er hægt að svara því en það sem er vitað er að Flake, sem hafði fyrr um daginn greint frá því að hann ætlaði að greiða atkvæði með tilnefningu Brett M. Kavanaugh í embætti hæstaréttardómara, setti fyrirvara við stuðninginn eftir að hafa hlýtt á konurnar. 

Að öldungadeildin frestaði því að greiða atkvæði um tilnefninguna þangað til bandaríska alríkislögreglan hefði rannsakað ásakanir á hendur Kavanaugh um kynferðislegt ofbeldi.

 

„Á mánudaginn stóð ég fyrir framan skrifstofuna þína,“ sagði önnur þeirra, Ana Maria Archila. „Ég greindi frá kynferðislegu ofbeldi sem ég varð fyrir.“

Anna Maria Archila.
Anna Maria Archila. AFP

Fréttamenn fylgdust grannt með Flake sem stóð inni í lyftunni og hlýddi á það sem konurnar höfðu að segja. „Ég verð að fara. Ég verð að mæta í málflutninginn,“ heyrist Flake segja við Archila á myndskeiði sem hefur farið sem eldur í sinu um netheima.

Archila þrjóskaðist við. „Ég greindi frá þar sem ég áttaði mig á því sem Ford er að segja. Hún segir sannleikann,“ sagði Archila. „Það sem þið eruð að gera. Að heimila einhverjum, sem raunverulega beitti konu ofbeldi, að setjast í Hæstarétt. Þetta er óþolandi. Það eru börn í fjölskyldu þinni. Hugsaðu um þau.“

Nokkru síðar kom Flake öllum á óvart með því að segja að hann myndi ekki styðja staðfestinguna án þess að FBI fengi viku til að rannsaka ásakanir á hendur dómaranum. 

Archila, sem starfar hjá Center for Popular Democracy, segir að reiði hafi stýrt gerðum hennar og orðum. Hún býr í New York en hefur verið í viku í Washington til að taka þátt í mótmælum vegna tilnefningar Kavanaughs. Hún hafi verið að lesa um ákvörðun Flakes, að hann hygðist greiða atkvæði með tilnefningunni, þegar hún sá hann koma að lyftunni. 

Archila og Maria Gallagher þustu að lyftunni og komu í veg fyrir að hann kæmist af stað án þess að hlýða á orð þeirra.

„Ég vildi að hann fyndi hversu reið ég var,“ sagði Archila í viðtali í gær. Þegar hún talaði við Flake leit hann niður og kinkaði kolli, augu hans hvörfluðu milli hennar, gólfsins og veggja lyftunnar. Andartak sem CNN birti í beinni útsendingu.

Svo tók Gallagher við: „Ég var beitt kynferðislegu ofbeldi og enginn trúði mér,“ sagði hún og bætti við „Ég sagði engum og þú ert að segja konum að þær skipti engu máli.“

Með tárin í augunum krafði hún Flake um að hlýða á það sem hún hefði að segja. „Ekki líta undan. Horfðu á mig og segðu mér að það skipti engu það sem ég varð fyrir. Að þú ætlir að leyfa fólki eins og honum að setjast í Hæstarétt landsins og segja þeim að þeir geti gert það sem þeim sýnist við líkama sína.“

AFP

Að sögn Archila hafði hvorug þeirra sagt sögu sína opinberlega áður. Hún varð fyrir kynferðislegu ofbeldi þegar hún var fimm ára gömul. Þegar sálfræðiprófessorinn Christine Blasey Ford sagði sögu sína hafi hún ákveðið að stíga sjálf fram. Hún hafi ekki gert það þegar #MeToo-byltingin hófst. Hún hafi byrjað að skrifa sína sögu en eytt henni því hún hafi hreinlega ekki treyst sér til þess. „En þegar Blasey gerði það þá neyddi ég sjálfa mig til þess að endurskoða ákvörðun mína.“

Dómsmálanefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings samþykkti í gær að leggja til að tilnefning Bretts Kavanaughs í embætti hæstaréttardómara yrði staðfest í öldungadeildinni.

Einnig var samþykkt að óskað yrði eftir því við Donald Trump Bandaríkjaforseta að gerð yrði ný rannsókn alríkislögreglunnar FBI á ásökunum kvenna á hendur Kavanaugh um kynferðisofbeldi. Samþykkti Trump tillöguna, en rannsóknin mun að beiðni nefndarinnar ekki taka lengri tíma en eina viku.

AFP

Tíu demókratar eiga sæti í nefndinni og voru allir andvígir tilnefningunni ólíkt þeim 11 repúblikönum sem eru í nefndinni. Demókratarnir höfðu krafist þess að atkvæðagreiðslunni yrði frestað til að alríkislögreglan FBI gæti rannsakað ásakanirnar á hendur Kavanaugh.

Lokaatkvæðagreiðsla um tilnefninguna fer fram í öldungadeildinni, en repúblikanar eru með nauman meirihluta í deildinni, 51 sæti á móti 49. Ef allir demókratarnir hafna tilnefningunni fellur hún ef tveir repúblikanar greiða atkvæði gegn henni.

Ef 50 þingmenn greiða atkvæði með henni og jafnmargir á móti getur Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, greitt oddaatkvæði. Talið er að tvær konur úr röðum repúblikana í öldungadeildinni geti ráðið úrslitum, þær Susan Collins og Lisa Murkowski.

BBC

New York Times

Guardian

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert