Stefnir í met kjörsókn vestanhafs

Kjörsókn hefur verið með besta móti frá því að kjörstaðir opnuðu í Bandaríkjunum í morgun og stefnir í bestu kjörsókn í þingkosningum í Bandaríkjunum í hálfa öld. Stjórnmálaskýrendur furðu sig á þessum mikla áhuga, sérstaklega í ljósi þess að áhugi kjósenda er yfirleitt minni í þingkosningum sem fara fram á miðju kjörtímabili forsetans, líkt og raunin er nú. 

Donald Trump hefur verið mjög sýnilegur í embætti forseta Bandaríkjanna frá því að hann var kjörinn fyrir tveimur árum og segja stjórnmálaskýrendur að framganga hans í embætti sé einn af lykilþáttunum hvað varðar kjörsókn. 

Andrew Menck, kjósandi frá Chicago, hefur ekki kosið í síðustu sjö þingkosningum en mætti á kjörstað í dag, ekki síst vegna andúðar sinnar á sitjandi forseta. „Ég er ósammála aðgerðum forsetans,“ segir hann í samtali við AFP-fréttastofuna. 

Þátt­taka í utan­kjör­fund­ar­at­kvæðagreiðslum er langt yfir meðallagi. Þegar henni lauk höfðu yfir 35 milljónir manns greitt atkvæði, samanborið við um 20 milljónir á sama tíma árið 2014. 

Í dag er kosið um 435 sæti í full­trúa­deild­inni og 35 af 100 sæt­um í öld­unga­deild­inni. Enn­frem­ur er kosið um rík­is­stjóra í 36 af 50 ríkj­um Banda­ríkj­anna. 

Kannanir benda til þess að demókratar muni ná meirihlutanum í fulltrúadeildinni af repúblikönum en að repúblikanar muni halda öldungadeildinni. Fáir taka hins vegar mark á könnunum þar sem spálíkön brugðust all verulega fyrir kosningarnar 2016. Von er á fyrstu tölum í kringum miðnætti á íslenskum tíma og von er á spennandi kosninganótt. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert