Drekkti föður sínum í baði

Aðkoman á herbergi 221 á First Hotel í Kristiansand 6. …
Aðkoman á herbergi 221 á First Hotel í Kristiansand 6. apríl 2014 var ekki fyrir viðkvæma, 66 ára gamall maður látinn í rúminu og gnótt lyfja og áfengis um allt herbergið. Ljósmynd/Norska lögreglan

Enginn hörgull er á lítt hugnanlegum manndráps- og ofbeldismálum í Noregi þessi misserin og mætti jafnvel segja að hin kyrrláta náttúruparadís Kristiansand í Suður-Noregi eigi þar einhvers konar blóðugt landsmet þar sem hvert hnífstungumálið hefur rekið annað, en nú er þar fyrir rétti 43 ára gömul sjö barna móðir sem ákærð er fyrir að byrla föður sínum róandi lyf árið 2002, áður en hún drekkti honum í baðkeri, og kæfa fyrrverandi sambýlismann sinn, föður tveggja úr barnahópnum, á hótelherbergi þar í bænum en sá gat sér litla björg veitt vegna þungra lyfhrifa.

Hún var ekki fögur aðkoman þegar Øystein Hagel Pedersen, 66 ára, fannst látinn á herbergi 221 á First Hotel í Kristiansand að morgni 6. apríl 2014. Svefnpillur af gerðinni Stilnoct lágu sem hráviði um herbergið og í blóði hans mældist styrkur zolpidem, virka efnisins í Stilnoct, 8,7 míkrómól í hverjum lítra sem er töluvert yfir ráðlögðum dagskammti lyfsins en sænsk rannsókn, sem dagblaðið VG vísar í upp úr málflutningi Leif Aleksandersen saksóknara, skilaði þeirri niðurstöðu að 2,0 míkrómól geti verið banvænn skammtur.

„Þú sýnir tennurnar núna, en það verður ekki lengi“

Við krufningu var því slegið föstu að dánarorsök Pedersens hefði einfaldlega verið ofneysla svefnlyfja í blandi við áfengisdrykkju. Á næstu árum tóku lögreglu þó að berast gögn sem bentu til þess að málið væri mun skuggalegra og Pedersen auk þess ekki eina fórnarlambið.

„Øystein hafa verið byrluð lyf og hún hefur haft háar upphæðir fjár af mönnunum í lífi sínu. Hún hefur enn fremur sagt Øystein að hún hafi myrt föður sinn, en hún sé svo klók að þið munið aldrei ná henni. Ég óttast að morðingi gangi laus.“

Svona hljómaði tölvupóstur sem fyrrverandi kona Pedersens sendi lögreglu ári fyrir andlát hans og norska ríkisútvarpið NRK greinir frá. Enginn las hins vegar tölvupóstinn fyrr en daginn áður en Pedersen lést þar sem hann fór villur í tölvupóstþjóni lögreglunnar. Ábendingin barst of seint. Hálfum mánuði fyrir lát Pedersens hafði ákærða hins vegar sent honum svohljóðandi SMS-skeyti sem ekki fór neinar villur og er eitt af þungavigtargögnum málsins: „Þú sýnir tennurnar núna, en það verður ekki lengi.“ (n. „Du  er tøff i trynet nå, men ikke så lenge.“)

Tólf árum fyrir þessa atburði, 27. mars 2002, fannst annar maður, Øyvind Terje Olsen 52 ára, látinn í baðkeri á heimili sínu í Kristiansand. Þetta var faðir ákærðu sem hafði sama dag sýnt dóttur sinni eign sína í hlutabréfasjóðum, 15 milljónir norskra króna, um 218 milljónir íslenskra króna að núvirði. Dóttirin var að sjálfsögðu meðal erfingja föður síns. Hann fannst látinn í baðkeri sínu klukkan 13:52 daginn eftir.

Líkið grafið upp í fyrra

Andlát Olsens var ekki talið hafa borið að með saknæmum hætti, hann hafði fengið kvíðastillandi lyfið Sobril uppáskrifað og vitað var að þeir Bakkus voru málkunnugir. Hann var talinn hafa drukkið ofan í kvíðalyf sitt og drukknað af slysni í baðkerinu. Lík Olsens heitins var ekki krufið. Ekki árið 2002.

Það gerðist hins vegar í fyrra þegar lögreglurannsókn andlátanna tveggja hafði staðið í á fjórða ár. Var lík Olsens þá grafið upp og krufið. Fundust þar engin merki um Sobril. Hins vegar hafði líkami hans innihaldið svo mikið magn benzódíazepínlyfsins Diazepam á dánarstundu að ljóst þótti að Olsen hefði varla getað varið hendur sínar, hvað þá liggjandi í baðkeri.

Er þarna var komið sögu tók að hitna nokkuð undir ákærðu eftir því sem gögnin gegn henni hrúguðust upp, það nýjasta mynd af erfðaskrá föður hennar sem hún birti á Facebook og kvartaði yfir því að hafa ekki erft nógu mikið en í hennar hlut kom aðeins lögbundinn hlutur lögerfingja, í þessu tilfelli ein milljón norskra króna, rúmlega 14,5 milljónir íslenskra króna á gengi dagsins í dag.

Djörf tálbeituaðgerð lögreglu

Ljóst var að lögreglu var sönnunarvandi á höndum. Vissulega var tilefnið fyrir hendi, peningar í tilfelli föðurins en ítrekaðar útistöður ákærðu við barnaverndaryfirvöld í tilfelli Pedersens en hún taldi hann oftsinnis hafa sigað barnaverndarnefnd á hana vegna barnanna tveggja sem honum tilheyrðu af börnunum sjö. 

Mörg ár voru hins vegar liðin í báðum tilfellum og engin vitni beinlínis að atburðum þótt margir hefðu lýst yfir áhyggjum sínum af atferli ákærðu. 

Lögreglan brá því á það ráð að tefla fram „Önnu“, lögreglukonu sem sigldi undir fölsku flaggi og tókst á löngum tíma að vingast við ákærðu. „Anna“ glímdi við vandamál: Hún vildi losa sig við fyrrverandi kærasta sem strauk henni andhæris. Konurnar hittust alls 49 sinnum og á fundum þeirra komu fram upplýsingar sem styrktu málatilbúnað lögreglunnar. Ekki er þó sopið kálið þótt í ausuna sé komið, strangar reglur gilda um notkun tálbeita hjá lögregluliði Noregs og leikast á ýmis sjónarmið.

Lögreglumaður, sem kemur fram sem tálbeita, má ekki á nokkurn hátt stuðla að afbroti, sem reyndar var of seint í þessu máli, auk þess sem hinn grunaði nýtur ekki þeirrar réttarverndar að hafa verið tilkynnt að hann sæti yfirheyrslu. Héraðsdómur Kristiansand hefur ekki tekið afstöðu til þess hvort „Anna“ fái að bera vitni í málinu, hefur verjandi hinnar ákærðu haft uppi hávær mótmæli um lögmæti tálbeituaðgerðarinnar og segir meint lögbrot tálbeitunnar endurtekin verði upptökur af samtölum þeirra spilaðar í réttinum.

Móðir barnanna sjö neitar alfarið sök í málinu og segist hafa misgert við hvorugan mannanna, föður sinn eða fyrrverandi sambýlismann. Hið sanna mun ef til vill koma í ljós við réttarhöldin sem nú eru að hefjast í Kristiansand.

Fréttir annarra norskra fjölmiðla en þegar hefur verið vísað í:

Frá Aftenposten

Frá VG

Frá TV2

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert