Merkel tekur Brexit-samningnum fagnandi

Angela Merkel, kanslari Þýskalands.
Angela Merkel, kanslari Þýskalands. AFP

Angela Merkel, kanslari Þýskalands, tekur drögunum að Brexit-samningnum fagnandi en varar við því að ef breska þingið neiti að samþykkja samninginn, sem allt bendir til, geti það leitt til verstu mögulegu niðurstöðu, það er útgöngu Breta úr ESB án samnings.

„Ég er mjög ánægð með, að eftir langar og oft og tíðum erfiðar samningaviðræður, er kominn samningur sem hægt er að samþykkja,“ sagði Merkel þegar hún ræddi við fjölmiðla að loknum ríkisstjórnarfundi í Potsdam í dag.

Merkel vonast til þess að samningsdrögin séu góður grunnur sem hægt verði að byggja útgöngu Breta úr ESB á.

Samningurinn var samþykktur af bresku ríkisstjórninni í gær og er til umræðu á þinginu í dag. Til stendur að afgreiða samninginn á fundi leiðtogaráðs ESB 25. nóvember. Ef það gengur eftir mun breska þingið greiða atkvæði um samninginn í desember. Að öllu óbreyttu munu Bretar ganga formlega úr Evrópusambandinu 29. mars á næsta ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert