Reynt að koma Assange úr sendiráðinu

Julian Assange.
Julian Assange. AFP

Lögmaður Julians Assange, stofnanda uppljóstrunarsíðunnar Wikileaks, hefur hafnað fyrir hönd skjólstæðings síns samkomulagi sem Lenin Moreno, forseti Ekvadors, greindi frá í dag að hefði náðst við stjórnvöld í Bretlandi þess efnis að Assange gæti yfirgefið ekvadorska sendiráðið í London þar sem hann hefur haldið til undanfarin sex ár.

Fram kemur á fréttavef breska dagblaðsins Daily Telegraph að Moreno hafi ekki farið leynt með löngun sína til þess að losna við Assange úr sendiráði Ekvadors, en uppljóstrarinn leitaði hælis í sendiráðinu í júní árið 2012 í kjölfar þess að hann var sakaður um kynferðisofbeldi í Svíþjóð og hefur ekki yfirgefið það síðan af ótta við að verða handtekinn.

Moreno tilkynnti í dag að samkomulag væri í höfn sem gerði Assange kleift að yfirgefa sendiráðið nánast sem frjáls maður eins og það var orðað. Hins vegar upplýsti forsetinn ekki hvað fælist nákvæmlega í því orðalagi. Fyrr á árinu var dregið úr aðgengi Assanges að internetinu og síma í sendiráðinu sem hann mótmælti sem mannréttindabroti.

Hefur Assange enn fremur verið gert að greiða sjálfur fyrir fæði sitt, læknisþjónustu og þvottaþjónustu frá og með byrjun þessa mánaðar. Moreno sagði bresk stjórnvöld hafa heitið því að Assange, sem er 47 ára ástralskur ríkisborgari, yrði ekki framseldur til ríkis hvar líf hans gæti verið í hættu. En lögmaður hans sagði samkomulagið óásættanlegt.

Lögmenn Assanges hafa lengi sagt að ekkert samkomulag yrði samþykkt sem gæti leitt til þess að Assange yrði framseldur til Bandaríkjanna. Þarlend yfirvöld vilja hafa hendur í hári hans vegna birtingar Wikileaks á miklum fjölda trúnaðargangna á sínum tíma sem komu einkum frá ráðuneytum utanríkis- og varnarmála í Bandaríkjunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert