Vantrauststillaga gegn May felld

Theresa May á breska þinginu.
Theresa May á breska þinginu. AFP

Vantrauststillaga gegn Theresu May, forsætisráðherra Bretlands, var felld í þingflokki íhaldsmanna rétt í þessu.

200 þingmenn flokksins greiddu atkvæði með því að May héldi áfram í embætti á móti 117 sem greiddu atkvæði gegn því.  

May þurfti að minnsta kosti 159 atkvæði frá íhaldsmönnum á breska þinginu til að geta haldið áfram sem leiðtogi flokksins.

Dyggir stuðningsmenn útgöngu Breta úr Evrópusambandinu stóðu á bak við vantrauststillöguna. Þeir eru mótfallnir Brexit-samningnum sem hún gerði við ESB í síðasta mánuði.

Þar með verður ekki hægt að leggja fram vantrauststillögu gegn May næsta árið. Staða hennar hefur engu að síður veikst. 

„Niðurstaða atkvæðagreiðslunnar í kvöld er að þingflokkurinn treystir Theresu May sem leiðtoga,“ sagði Graham Brady, formaður nefndar sem hafði umsjón með atkvæðagreiðslunni.

May á leið að Downing-stræti 10.
May á leið að Downing-stræti 10. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert