Fellibylurinn Owen nálgast Ástralíu

Fellibylurinn Owen nálgast Queensland í Ástralíu.
Fellibylurinn Owen nálgast Queensland í Ástralíu. Ljósmynd/Twitter

Íbúar í norðausturhluta Ástralíu undirbúa sig nú fyrir öflugan fellibyl, sem fengið hefur nafnið Owen, sem hefur verið að færast í aukana norður af Queensland.

Yfirvöld hafa gefið út flóðaviðvaranir vegna mikillar úrkomu sem fylgir fellibylnum. Spár gera ráð fyrir að Owen verði orðinn fjórða stigs fellibylur þegar hann kemur að landi seint í kvöld eða nótt.

Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofunni í Queensland má búast við talsverðri eyðileggingu vegna fellibylsins en von er á að vindhraði fari upp í allt að 55 metra á sekúndu. Fellibylurinn mun ná landi við Queensland en fer svo niður með austurströnd landsins.

Íbúar í Queensland eru ekki ókunnir fellibyljum en í mars í fyrra olli fellibylurinn Debbie mikilli eyðileggingu. Hann var einnig fjórða stigs fellibylur líkt og gert er ráð fyrir að Owen verði þegar hann kemur að landi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert