Hættur eftir aðeins sjö vikur

Mahinda Rajapaksa er kominn og farinn úr stóli forsætisráðherra.
Mahinda Rajapaksa er kominn og farinn úr stóli forsætisráðherra. AFP

Mahinda Rajapaksa hefur sagt af sér sem forsætisráðherra Sri Lanka, aðeins sjö vikum eftir að hann var útnefndur ráðherra. Útnefningin kom mörgum mjög á óvart og leiddi til pólitísks uppnáms í landinu. 

Rajapaksa, sem er fyrrverandi forseti landsins, undirritaði afsagnarbréfið við formlega athöfn sem fór fram á heimili hans. 

Namal, sonur Rajapaksa, segir í samtali við BBC, að faðir hans hafi ákveðið að stíga þetta skref til að tryggja pólitískan stöðugleika. 

Vonir standa til að afsögnin leiði til þess að bundinn verði endi á valdabaráttu sem hefur staðið yfir í tæpa tvo mánuði, en þau hafa dregið úr stöðugleika landsins. 

Fram kemur á vef BBC, að Maithripala Sirisena, forseti landsins, hafi í október vikið þáverandi forsætisráðherra Ranil Wickremesinghe úr embætti og útnefnt Rajapaksa í hans stað. 

Búist er við að Wickremesinghe snúi aftur til starfa á morgun. Talsmaður hans segir að forsetinn hafi heitið því að Wickremesinghe muni sverja embættiseið á nýju sem forsætisráðherra landsins kl. 10 að staðartíma. 

Hann segir ennfremur að þetta muni rjúfa þá pólitísku pattstöðu sem verið hefur og hafi valdið skaða, ekki síst efnahagslega. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert