Kvalalosti leiddi til manndráps

John Broadhurst játaði að hafa gerst sekur um manndráp af …
John Broadhurst játaði að hafa gerst sekur um manndráp af vítaverðu gáleysi. Ljósmynd/Lögreglan í Staffordskíri

Breskur auðmaður, sem varð valdur að dauða kærustu sinnar með því að stórslasa hana í öfgafullum kynlífsathöfnum og skilja hana eftir bjargarlausa, var í dag dæmdur í þriggja ára og átta mánaða fangelsi fyrir manndráp.

Dómstóll í Birmingham komst að þessari niðurstöðu, en maðurinn, John Broadhurst, hafði játað að hafa gerst sekur um manndráp af vítaverðu gáleysi er gjörðir hans leiddu til þess að kærasta hans, Natalie Connolly, lét lífið í desember árið 2016. Broadhurst var hins vegar sýknaður af morðákæru, samkvæmt frétt BBC um málið.

Vitni sem gáfu skýrslu við réttarhöldin sögðu frá því að fórnarlambið hefði sagt þeim frá því að hún og Broadhurst hefðu sameiginlegan áhuga á kynlífi snúnu kvalalosta. Broadhurst er fertugur að aldri, en Connolly var 26 ára gömul er hún lét lífið. Þau höfðu nýlega hafið sambúð í bænum Kinver í Staffordskíri er atvikið örlagaríka átti sér stað.

Sakborningurinn sagði fyrir rétti að athafnir þeirra þetta kvöld hefðu verið með beggja samþykki og að þau hefðu verið undir áhrifum áfengis og fíkniefna, en saksóknarar í málinu héldu því fram að Broadhurst hefði algjörlega misst stjórn á sér við kynlífsathafnirnar og skilið svo Connelly eftir í blóði sínu, en Connolly var með yfir 40 áverka víðs vegar um líkamann. Dánarorsök hennar var samblanda af áfengiseitrun og höggáverkum.

Frámunalega óábyrgð hegðun

Dómarinn í málinu, Julian Knowles, sagði við dómsuppkvaðninguna að Broadhurst hefði algjörlega brugðist þetta kvöld fyrir tveimur árum.

„Þú varst fær um að taka ákvarðanir. Þetta var frámunalega óábyrg hegðun af þinni hálfu,“ sagði dómarinn og bætti við að Broadhurst hefði vel getað komið í veg fyrir dauða Connolly.

Verjandi Broadhurst sagði að skjólstæðingur sinn hefði vitað að það blæddi úr kærustu hans, en að hann hefði ekki talið að hún væri alvarlega slösuð. „Hann finnur til iðrunar vegna þess og hefur alltaf gert,“ sagði verjandinn og bætti við að málið snerist um gáleysi og sviplegt fráfall ástvinar.

Foreldrar Connolly sögðu í yfirlýsingu að dóttir þeirra gæti enn verið á lífi ef Broadhurst hefði brugðist rétt við og hringt í neyðarlínuna strax. Þau sögðu jafnframt að þeim væri nú fullljóst að Broadhurst væri kaldgeðja og virðingarlaus maður, sem hefði aldrei boðist opinberlega afsökunar eða sýnt iðrun fyrir að hafa skilið dóttur þeirra eftir bjargarlausa í lífshættulegu ástandi.

Þau bættu því við að dóttir Connolly þyrfti nú að „afplána lífstíðardóm“ án móður sinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert