Kína sækist ekki eftir heimsyfirráðum

Kína mun ekki vaxa og dafna á kostnað annarra landa, samkvæmt því sem fram kom í ræðu Xi Jinping, forseta landsins, sem hann hélt í tilefni þess að 40 ár eru síðan farið var í endurbyggingu kínversks efnahagskerfis með þeim afleiðingum að það varð annað stærsta hagkerfi heims.

Þessu lofaði Xi í ræðu sinni, en tók jafnframt fram að Kína myndi ekki láta neinn segja sér til. BBC greinir frá.

Hundruðum þúsunda Kínverja hefur verið bjargað frá fátækt á síðustu áratugum, en undanfarið hefur dregið úr efnahagsvexti landsins.

Xi sagði að þrátt fyrir efnahagslegan vöxt myndi Kína aldrei sækjast eftir heimsforystu, heldur leggja áherslu á sameiginlega framtíð mannkyns.

Ekki minntist Xi á viðskiptadeilurnar við Bandaríkin í ræðu sinni, né heldur á ásakanir þess efnis að hundruð þúsunda múslima hafi verið tekin höndum og fangelsuð án dóms og laga í Xinjiang-héraði.

Aðrar Asíuþjóðir hafa miklar áhyggjur af því að Kínverjar sækist eftir yfirráðum í álfunni, en Kína hefur hertekið nokkrar eyjar í Suður-Kínahafi sem eru hluti af mikilvægri siglingaleið á svæðinu. Þá segja gagnrýnendur einnig að þrátt fyrir að Kína veiti þróunarlöndum í Asíu og Afríku mikla hjálp, þá skuldsetji það löndin í tilraun til að tryggja áframhaldandi áhrif sín.

Xi sagði að þrátt fyrir efnahagslegan vöxt myndi Kína aldrei …
Xi sagði að þrátt fyrir efnahagslegan vöxt myndi Kína aldrei sækjast eftir heimsforystu. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert