Soros maður ársins hjá Financial Times

„Hann er merkisberi frjálslynds lýðræðis og opinna samfélaga,“ segir í …
„Hann er merkisberi frjálslynds lýðræðis og opinna samfélaga,“ segir í umfjöllun Financial Times um Soros. AFP

Financial Times hefur útnefnt ungversk-bandaríska auðkýfinginn George Soros sem mann ársins 2018. Soros, sem er 88 ára gamall, fær að sögn blaðsins að njóta þessa heiðurs í ár, ekki síst vegna þeirra gilda sem hann stendur fyrir.

„Hann er merkisberi frjálslynds lýðræðis og opinna samfélaga. Þetta eru hugmyndirnar sem urðu ofan á í kalda stríðinu. Í dag er setið um þær úr öllum áttum, frá Rússlandi Vladimírs Pútíns til Bandaríkja Donalds Trump,“ segir um útnefninguna í umfjöllun Financial Times um Soros.

Blaðið segir Soros hafa barist með manngæsku gegn einræði, rasisma og óréttlæti undanfarna þrjá áratugi. Barátta hans fyrir opnum samfélögum, fjölmiðlafrelsi og mannréttindum hafi þó gert það að verkum að hann hafi eignast ýmsa óvini, sér í lagi á meðal stjórnmálamanna með einræðistilburði og nú nýlega þjóðernispopúlista, sem njóta æ meiri stuðnings, sérstaklega í Evrópu.

„Mér er kennt um allt, meðal annars það að vera antíkristur,“ segir hæðinn Soros í viðtali við FT og bætir við að hann vildi óska þess að hann ætti ekki svona mikið af óvinum. „En ég tek því sem vísbendingu um að ég sé að gera eitthvað rétt.“

Þó sárnar honum að vera líkt við djöfulinn sjálfan. „Sú staðreynd að öfgamenn fái áhuga á því að drepa mig út af ósönnum samsæriskenningum um mig, særir mig ferlega,“ segir Soros, sem var á meðal þeirra fyrstu sem fékk bréfsprengju senda heim til sín í haust í tilræðunum sem Ces­ar Sayoc stóð á bak við vestanhafs.

Lesa má ítarlegt viðtal Financial Times við George Soros hér.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert