„Myndskeið sem enginn ætti að sjá“

Maren Ueland frá Bryne í Rogaland í Noregi og hin …
Maren Ueland frá Bryne í Rogaland í Noregi og hin danska Louisa Vesterager Jespersen, rúmlega tvítugar háskólastúdínur í Noregi sem mættu hrottalegum örlögum í Atlas-fjöllunum í Marokkó á mánudaginn. Norðmenn og Danir eru í sorg eftir atburðinn og í kvöld var gengin blysganga í Bryne, heimabæ Ueland, til minningar um nágranna og vinkonu sem var hvers manns hugljúfi. Ljósmyndir/Úr einkasafni/Samsett mynd norska ríkisútvarpið NRK

Myndskeið, sem er að öllum líkindum ófalsað og sýnir hrottalega aftöku þeirra Maren Ueland frá Noregi og Louise Vestager Jespersen frá Danmörku í marokkósku fjalllendi á mánudag, fer nú sem eldur í sinu um lýðnetið og leggur norska rannsóknarlögreglan Kripos nótt við nýtan dag til að stöðva dreifinguna og fá fjölda netþjónustuaðila til að fjarlægja myndskeiðið af vefjum sínum.

„Þetta er myndskeið sem enginn ætti að sjá. Við teljum að það sé ósvikið og vinnum nú að því að greina hvaðan það kemur, hvert umfang dreifingar þess er og hvað það sýnir,“ segir Ida Dahl Nilssen, upplýsingafulltrúi Kripos, í samtali við norska ríkisútvarpið NRK í dag.

Nilssen segir það helsta forgangsverkefni að stöðva dreifingu myndskeiðsins og hafi stjórnendur Facebook þegar brugðist við beiðni rannsóknarlögreglunnar og stöðvað birtingu þess á samfélagsmiðlinum fjölmenna. NRK ræddi við fulltrúa Facebook í dag sem hafnaði beiðni um viðtal en sendi ríkisútvarpinu tölvupóst og vildi þar koma eftirfarandi á framfæri: „Við höfum eytt þessu myndbandi alls staðar af okkar síðum og gert ráðstafanir til að upphleðsla þess á Facebook verði ekki möguleg.“

Ekki hlaupið að því að stöðva dreifingu

Hans Marius Tessem, talsmaður síðunnar slettmeg.no (eyddumér.no) sem veitir ráðgjöf um hvernig heppilegast sé að láta eyða óæskilegri umfjöllun af lýðnetinu að kröfu einstaklinga og fyrirtækja, segir á brattann að sækja við að stöðva slíka dreifingu, fólk hafi vistað myndskeiðið í tölvum sínum og geti í raun dreift því hvert sem hugurinn girnist.

Fréttamaður NRK spyr Nilssen hjá Kripos hverju það sæti að fólk, sem var tengt og jafnvel í vinasambandi við hinar látnu, hafi deilt myndskeiðinu á Facebook. „Við vitum til þess að myndskeiðinu hafi verið dreift mjög fljótlega á einkasíðum á Facebook [lokuðum hópum]. Erfitt er fyrir okkur að leggja mat á hvort þetta sé af illgirni eða hugsunarleysi,“ svarar Nilssen. „Okkar skoðun er sú að þetta sé ekki efni sem fólk eigi að deila með öðrum og ekki að horfa á sjálft. Hvort tveggja af tillitssemi við sjálft sig og ekki síður aðstandendur [hinna látnu].“

Fjórir menn liggja nú undir grun um að ráða skandinavísku konurnar af dögum en talið er að aðilar málsins séu þó mun fleiri. Fulltrúar Kripos-lögreglunnar eru komnir til Marokkó og vinna þar að rannsókn málsins í samstarfi við marokkósk og dönsk lögregluyfirvöld.

Ritstjórn mbl.is vill koma þökkum á framfæri til Mariu Knoph Vigsnæs, fréttamanns norska ríkisútvarpsins NRK, við vinnslu fréttarinnar.

Fréttir norskra fjölmiðla af myndskeiðinu:

Frá NRK

Frá Aftenposten

Frá VG

Frá TV2

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert