Búa sig undir Brexit án samnings

Pedro Sanchez forsætisráðherra Spánar á blaðamannafundi í Madríd í dag.
Pedro Sanchez forsætisráðherra Spánar á blaðamannafundi í Madríd í dag. AFP

Spænska ríkisstjórnin býr sig nú undir að Bretland gangi úr Evrópusambandinu án þess að samningar um útgönguna verði undirritaðir. Þetta sagði Pedro Sanchez forsætisráðherra Spánar við blaðamenn í Madríd í dag.

Talið er að á milli 800.000 til 1 milljón Breta búi á Spáni, þótt einungis um 300 þúsund þeirra séu skráðir til heimilis þar í landi. Þá búa yfir 115.000 Spánverjar í Bretlandi. Forsætisráðherrann segist vilja koma þeim skilaboðum áleiðis til þessara hópa að réttindi þeirra verði tryggð, sama hvernig fer.

Ríkisstjórn Spánar ætlar að kynna lagabálk í byrjun febrúar í síðasta lagi, sem mun tryggja breskum ríkisborgurum búsettum á Spáni sömu réttindi og þeir njóta núna, til dæmis kjörgengi í sveitarstjórnarstjórnarkosningum og annað slíkt, svo lengi sem Spánverjar búsettir í Bretlandi fá sömu meðferð hjá stjórnvöldum þar í landi.

Samkvæmt forsætisráðherranum mun fyrirhugað samkomulag Spánverja og Breta, sem unnið  hefur verið í „nánu samstarfi“ við ráðamenn í Brussel og öðrum Evrópusambandsríkjum, einnig tryggja tvíhliða viðskiptatengsl á milli Spánverja og Breta.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert