Fjölskylda flugmannsins kærir

Allir farþegar um borð og meðlimar áhafnar létust.
Allir farþegar um borð og meðlimar áhafnar létust. AFP

Fjölskylda flugmannsins sem stýrði Lion Air-vélinni sem fórst í Indónesíu í október hefur kært flugframleiðandann Boeing. Segir fjölskyldan að fyrirtækið hafi framleitt gallaða flugvél sem hafi valdið slysinu.

189 farþegar voru um borð í vélinni þegar hún hóf flug frá höfuðborg Indónesíu, Jakarta, í lok október. Vélin var aðeins fáeinar mínútur á lofti áður en hún steyptist í hafið. Hún var ný og af gerðinni Boeing 737 MAX 8.

Í ákærunni er framleiðandinn Boeing sakaður um að smíða og selja flugvél sem væri „gölluð og í ástandi sem gerði hana óhóflega hættulega fyrir fyrirhugaða notkun hennar.“

Eftir því sem fram kemur á vef CNN  hafa talsmenn Boeing ekki viljað tjá sig um ákæruna á hendur sér. Fer fjölskylda flugmannsins fram á að málið verði dæmt af kviðdómi.

Í ákærunni eru lagðar fram þrennar ásakanir sem eru að sögn fjölskyldu flugmannsins grundvöllur málsins.

Í fyrsta lagi kemur fram að skynjarar vélarinnar hafi án tilefnis valdið því að sjálfvirkt kerfi vélarinnar sem átti að koma í veg fyrir ofris hennar, hafi lækkað nef vélarinnar og valdið því að hún tók of bratta dýfu og hrapaði.

Í öðru lagi kemur fram að kerfi vélarinnar hafi ekki brugðist við stjórn flugmannsins í tæka tíð og að lokum segir að leiðarvísir vélarinnar hafi ekki haft fullnægjandi upplýsingar um hvernig bregðast ætti við þegar sjálfvirka kerfið brást.

Reyndu ítrekað að ná stjórn á sjálfvirku kerfi

Í bráðabirgðaskýrslu indónesískra flugmálayfirvalda sem birt var í nóvember kom í ljós að flugmenn vélarinnar hafi ekki náð að stjórna vélinni, sem bjó yfir sjálfvirku stýrikerfi, þrátt fyrir fjölmargar tilraunir. Samkvæmt gögnum úr flugrita vélarinnar reyndu flugmennirnir ítrekað að ná valdi á sjálfvirka kerfinu sem togaði vélina ítrekað niður.

Kerfið var samkvæmt skýrslunni að bregðast við gölluðum gögnum sem bentu til þess að nef flugvélarinnar væri meira hallandi en það raunverulega var sem gaf til kynna hættu á að vélin missti hraða.

Í kjölfar skýrslunnar sögðu talsmenn Boeing að 737 MAX 8-vélarnar væru „jafn öruggar og nokkur önnur flugvél sem hefur tekið á loft“ og að fyrirtækið væri að „gera allt sem það gæti til þess að skilja til hlítar allar hliðar slyssins.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert