Hugsanlega lokaðar árum saman

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur ekki í hyggju að gefa …
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur ekki í hyggju að gefa eftir í deilunni við demókrata. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti kvaðst í dag reiðubúinn til þess að halda bandarískum ríkisstofnunum lokuðum eins lengi og á þyrfti að halda, mánuðum og jafnvel árum saman, til þess að fá fram samþykki bandaríska þingsins á fjárveitingu til þess að reisa vegg á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó. Stofnanirnar hafa verið lokaðar í tvær vikur.

„Þetta snýst um þjóðaröryggi,“ sagði Trump sem hefur staðið í deilum við demókrata um fjárveitinguna. Fjárlagafrumvarp þessa árs var samþykkt af fulltrúadeild þingsins í gær án fjárveitingar fyrir landamæravegg en demókratar hafa nú meirihluta í deildinni. Frumvarpið á eftir að hljóta samþykki öldungadeildarinnar hvar repúblikanar eru í meirihluta. Verði það samþykkt þar gæti Trump beitt neitunarvaldi gegn því að lögin taki formlega gildi.

Trump sagði landamærin að Mexíkó vera hættuleg vegna ólöglegra innflytjenda og glæpamanna sem smygluðu fólki og eiturlyfum. Fyrir vikið yrði að reisa vegginn, en hann var eitt helst kosningaloforð Trumps. Forsetinn vill að þingið samþykki 5,6 milljarða dollara fjárveitingu til þess að reisa landamæravegg úr steinsteypu og stáli.

Trump sagðist einnig vera að skoða leiðir til þes að fjármagna vegginn án þess að þingið kæmi að málum. „Mér er það heimilt.“ Viðræður væru þó í gangi á milli demókrata og repúblikana með það fyrir augum að reyna að finna lausn á málinu. Hins vegar segir í frétt AFP að líkur á lausn virðist ekki miklar. Eftir að demókratar náðu meirihluta í fulltrúadeildinni um áramótin séu þeir ekki mjög áhugasamir um að gefa eftir í deilunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert