„Ströndin er nánast alveg horfin“

Birgitta Ósk Gústavsdóttir og Eggert Steinar Magnússon.
Birgitta Ósk Gústavsdóttir og Eggert Steinar Magnússon. Ljósmynd/Eggert Steinar Magnússon

„Við skildum ekki alveg af hverju það var svona margt fólk að ryðjast í gegn, bara eins og það væri menningarnótt eða eitthvað, að komast frá höfninni og inn í bæinn,“ segir Birgitta Ósk Gústavsdóttir sem kom til taílensku eyjarinnar Koh Tao ásamt kærastanum sínum, Eggerti Steinari Magnússyni, með ferju í gær.

Hitabeltisstormur, sem er talið að verði sá versti í 30 ár, skall á suðurhluta Taílands í dag en taílensku eyjarnar Koh Samui, Koh Tao og Koh Phang­an munu líklega fara verst út úr storm­in­um. Birgitta segir veðrið þó ekki eins slæmt og þau bjuggust við. 

Allur matur er búinn í ýmsum búðum á Koh Tao. …
Allur matur er búinn í ýmsum búðum á Koh Tao. Ekki hefur náðst að senda meiri mat. Ljósmynd/Eggert Steinar Magnússon

Kafa þrátt fyrir storminn

„Við vorum ekki búin að skoða veðurspána eða neitt áður en við fórum en þetta er mildara en við héldum. Ströndin er reyndar nánast alveg horfin og það er vatn undir fremstu húsunum þar. Það er bara búin að vera mikil rigning í dag og alveg skýjað en við fórum alveg í morgunmat klukkan átta og erum búin að fara á kaffihús í hádeginu.“

Parið er í köfunarkennslu á eyjunni og verður henni haldið til streitu. „Það er alveg verið að kafa og allt saman úti í sjó. Það er náttúrulega bara allt mjög blautt en það var víst miklu verra hérna fyrir þremur árum síðan, þá var það bara ekki á þessu tímabili. Við skoðuðum vindaspá og það eiga að vera 17 metrar á sekúndu þannig að það hefur nú oft verið verra.“

Afgreiðslukassi varinn fyrir rigningunni með plastpoka.
Afgreiðslukassi varinn fyrir rigningunni með plastpoka. Ljósmynd/Eggert Steinar Magnússon

„Ömurleg“ bátsferð

Bátsferðin til Koh Tao var löng og ströng. „Hún var hrikaleg, eiginlega alveg ömurleg. Það voru líka bara allir ælandi svo maður bara lokaði augunum og reyndi að sofa. Þau fóru fyrr af stað heldur en var áætlað, líklegast bara til þess að koma fleirum yfir eða eitthvað.

Við vorum nánast fjóra tíma á leiðinni en áttum ekki að vera nema tvo tíma og 45 mínútur. Þetta var ein versta bátsferð sem ég hef nokkurn tímann farið í. En þetta er alla vega ekki eins slæmt og við héldum.“

Birgitta segir að þótt það sé líklega ekki jafn margt fólk og vant er þá sé alveg nóg af ferðamönnum. Aðspurð segir hún að fólk sé ekki smeykt við storminn. „Sú sem er að kenna okkur að kafa sagði okkur bara að passa okkur á kókoshnetunum. Þær geta dottið úr trjánum. Það var það eina sem hún hafði að segja. Þannig að þetta ætti allt bara að ganga mjög vel.“  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert