Kann að lýsa yfir neyðarástandi

Donald Trump Bandaríkjaforseti segir koma til greina að lýsa yfir …
Donald Trump Bandaríkjaforseti segir koma til greina að lýsa yfir neyðarástandi í Bandaríkjunum til þess að hægt verði að fjármagna vegg á landamærum landsins að Mexíkó. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur lýst því yfir að hann kunni að lýsa yfir neyðarástandi í Bandaríkjunum til þess að hægt verði að reisa vegg á landamærum landsins að Mexíkó án þess að samþykki Bandaríkjaþings þurfi fyrir fjárveitingu vegna hans.

Fram kemur á fréttavef breska ríkisútvarpsins BBC að Trump hafi lýst þessu yfir eftir að hann fundaði með forystumönnum demókrata sem hafi ítrekað andstöðu sína við að samþykkja fjárveitinguna. Fyrir vikið hefur fjárlagafrumvarpið vegna þessa árs ekki verið samþykkt af Bandaríkjaþingi og fjöldi opinberra stofnana verið lokaðar frá því fyrir jól.

Trump hefur sagst reiðubúinn að halda ríkisstofnunum lokuðum jafnvel árum saman til þess að tryggja fjármögnun landamæraveggjarins. Til stendur að fulltrúar Trumps hitti þingmenn síðar í dag til þess að reyna að leysa deiluna. Spurður hvort til greina kæmi að lýsa yfir neyðarástandi til þess að hægt verði að reisa vegginn sagði Trump svo vera.

„Ég kann að gera það. Við getum lýst yfir neyðarástandi og reist vegginn mjög hratt. Það er önnur leið til þess að gera það,“ sagði Trump. Forsetinn sagði lokun ríkisstofnanana einfaldlega vera það sem gera þyrfti til þess að tryggja öryggi landsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert