Leggur til háa skatta á þá ofurríku

Mynd úr framboði Alexandriu Ocasio-Cortez: „Þau hafa peninga. Við höfum …
Mynd úr framboði Alexandriu Ocasio-Cortez: „Þau hafa peninga. Við höfum fólk.“ Ljósmynd/ Facebook-síða Ocasio-Cortez

Alexandria Ocasio-Cortez er yngsta konan sem hefur verið kjörin á þing í Bandaríkjunum. Hún er þingmaður Demókrataflokksins og er þegar byrjuð að láta til sín taka. Hún lagði fram sitt frumvarp í fulltrúadeildinni í liðinni viku en þar er lagt til að leggja sérstakan hátekjuskatt á þá ofurríku. Skattprósentan yrði 60 eða 70 prósent. 

Ocasio-Cortez er 29 ára gömul og kemur úr millistéttarfjölskyldu í New York. Í viðtali við 60 Minutes á CBS-sjónvarpsstöðinni í gær sagði hún að þetta væri eðlileg hlutdeild þeirra til samfélagsins. Um er að ræða hluta af stærra samhengi varðandi skattabreytingar þar sem tekið er tillit til umhverfisins og kolefnisjöfnunar. 

Alexandria Ocasio-Cortez.
Alexandria Ocasio-Cortez.

Hæsta skatthlutfallið er nú 37% í Bandaríkjunum eftir að Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, lét lækka þá úr 39,6%.

Afar ólíklegt þykir að frumvarpið nái fram að ganga en hugmyndin hefur fengið jákvæð viðbrögð hjá stórum hópi Bandaríkjamanna. Tillagan náði á forsíðu New York Daily News og Washington Post hefur einnig fjallað um málið.

Þar kemur fram að hópurinn sem hátekjuskattarnir myndu ná til telur um 16 þúsund manns. Þar að segja fólk sem er með yfir 10 milljónir Bandaríkjadala, 1,1 milljarð króna, í árstekjur. Ef skatturinn yrði 70% myndi það þýða um 72 milljarða dala í tekjur fyrir alríkisstjórnina á ári. Sú fjárhæð svarar til tæplega 8.500 milljarða íslenskra króna.

Einn þeirra sem tekur undir með Ocasio-Cortez er Nóbelsverðlaunahafinn og hagfræðingurinn Paul Krugman en hann skrifar reglulega pistla í New York Times. Hann segir að hún segi nákvæmlega það sama og góðir hagfræðingar segi.

Þegar Ocasio-Cortez hafði betur í baráttunni við Joseph Crowley um að verða frambjóðandi demókrata í 14. umdæmi New York-ríkis í fulltrúadeildinni í júní vakti það mikla athygli enda hafði Crowley setið á þingi í meira en áratug og þótti líklegur til þess að blanda sér í baráttuna um að verða forseti fulltrúadeildarinnar.

Eitt af því sem Ocasio-Cortez er þekkt fyrir er að ráðast afar sjaldan á forseta landsins, Donald Trump. En þegar hún var spurð beint í þættinum í gær sagði hún að það væri engin spurning þar um - Trump væri rasisti. Þetta vakti litla hrifningu í Hvíta húsinu og sendi forsetaembættið frá sér tilkynningu þar sem tekið var fram að Trump hefði ítrekað fordæmt rasisma og ofstæki af öllu tagi.

Frétt CNN

Ocasio-Cortez er vön gagnrýni og hefur oft svarað henni fullum hálsi. Til að mynda þegar Ed Rollins, kosningastjóri repúblikana, kallaði hana „litla stelpu“ í viðtalsþætti skaut hún á hann á Twitter með því að segja hann vera gangandi dæmi um þá sem styðja misskiptinguna í skattkerfinu.

Á föstudag var birt myndskeið af henni að dansa við félaga sinn við Boston-háskólann á námsárunum við lagið Lisztomania með frönsku hljómsveitinni  Phoenix. Í stað þess, líkt og ætlunin var, að gera lítið úr þingkonunni hafði myndskeiðið þveröfug áhrif og vakti mikla gleði á samfélagsmiðlum, en yfir tvær milljónir fylgja henni á Twitter og ein og hálf milljón fylgir henni á Instagram.

 

 

Ocasio-Cortez er fædd í Bronx árið 1989 en faðir hennar, sem einnig er fæddur í Bronx, er ættaður frá Púertó Ríkó og menntaður arkitekt. Móðir hennar er aftur á móti fædd í Púertó Ríkó. 

Hún lauk námi frá Boston-háskóla árið 2011 en með BA-gráðu í alþjóðasamskiptum með hagfræði sem aukagrein. Áherslur Ocasio-Cortez þykja róttækar og vinstrisinnaðar á bandarískan mælikvarða, en hún er fylgjandi gjaldfrjálsri heilbrigðisþjónustu og háskólamenntun fyrir allar stéttir. Einnig boðaði hún endurskipulagningu réttarkerfisins.

 

 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert