Hrottaleg árás á þingmann

Frank Magnitz.
Frank Magnitz. AFP

Þýski þingmaðurinn Frank Magnitz særðist alvarlega í árás í Bremen síðdegis í gær. Að sögn lögreglu er talið að árásin sé af pólitískum rótum en Magnitz er þingmaður þjóðernisflokksins Annar kostur fyrir Þýskaland (AfD).

Ráðist var á þingmanninn af þremur grímuklæddum mönnum síðdegis í gær í miðborg Bremen. AfD birti mynd af Magnitz meðvitundarlausum í sjúkrarúmi alblóðugum í framan og bólgnum. 

Jörg Meuthen, leiðtogi AfD, segir að litlu hefði mátt muna að Magnitz hafi verið barinn til bana. Þetta er ekki eina árásin á flokkinn og flokksfélaga að undanförnu því í síðustu viku sprakk sprengja í ruslafötu á skrifstofu AfD í Saxlandi. AfD fékk 13% fylgi í síðustu þingkosningum og kom í fyrsta skipti mönnum á þing í september í fyrra.

Bætt við klukkan 8:25

Í yfirlýsingu frá AfD kemur fram að árásarmennirnir hafi barið hann með spýtu þangað til hann missti meðvitund en að byggingaverkamenn hafi komið að og stöðvað árásina.

Johannes Kahrs, þingmaður jafnaðarmanna, segir að aldrei sé ásættanlegt að ofbeldi sé beitt og að öfgahyggja í allar áttir sé ólíðandi. Hann sendir Magnitz bestu kveðjur um góðan bata og í svipaðan streng tekur Cem Ozdemir þingmaður Græningja. Hann segist vonast til þess að árásarmennirnir náist og verði dæmdir fyrir glæp sinn. Ekkert réttlæti ofbeldi gagnvart öðru fólki. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert