Mögulega kosið á ný í Svíþjóð á páskadag

Ríkisstjórn hefur enn ekki verið mynduð í Svíþjóð, fjórum mánuðum …
Ríkisstjórn hefur enn ekki verið mynduð í Svíþjóð, fjórum mánuðum eftir þingkosningar. AFP

Ulf Kristers­son, for­maður hægri­flokks­ins Modera­terna, og Stef­an Löf­ven, leiðtogi Jafnaðarmanna­flokks Svíþjóðar og sitjandi forsætisráðherra, hittu Andreas Norlén, forseta sænska þingsins, hvor í sínu lagi í morgun, en þeir höfðu fengið lokafrest til að mynda nýja ríkisstjórn. Kristers­son var hafnað 14. nóv­em­ber og Löf­ven var hafnað 14. des­em­ber. Ríkisstjórn hefur enn ekki verið mynduð í Svíþjóð, fjórum mánuðum eftir þingkosningar.

Ulf Kristersson, for­maður hægri­flokks­ins Modera­terna.
Ulf Kristersson, for­maður hægri­flokks­ins Modera­terna. AFP

Löfven sagði á blaðamannafundi eftir fund sinn með forseta þingsins að viðræður um myndun ríkisstjórnar stæðu enn yfir. Til­laga Löf­ven hljóðar upp á sama stjórn­ar­sam­starf og áður, jafnaðar­menn og Græn­ingj­ar sem mynduðu rík­is­stjórn lands­ins síðasta kjör­tíma­bil. Hann segir viðræðurnar hafa verið uppbyggilegar og unnið væri að því að ríkisstjórn yrði mynduð eins fljótt og auðið er.

Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar, segir að reynt verði að mynda …
Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar, segir að reynt verði að mynda starfhæfa ríkisstjórn eins fljótt og auðið er. AFP

Norlén segir að til standi að greiða atkvæði um nýjan forsætisráðherra 16. janúar. Ef ekki tekst að mynda nýja ríkisstjórn í þessari tilraun verður jafn­vel kosið í fjórða skiptið, síðar í þessum mánuði. Sú staða hefur aldrei áður komið upp á sænska þinginu en nýr forsætisráðherra hefur alltaf verið kjörinn við fyrstu atkvæðagreiðslu í þinginu að loknum kosningum.

Andreas Norlén, forseti sænska þingsins.
Andreas Norlén, forseti sænska þingsins. AFP

Ef það tekst hins vegar ekki verður að öllum líkindum boðað til nýrra þingkosninga og verða þær að eiga sér stað innan þriggja mánaða frá síðustu atkvæðagreiðslu á þinginu um forsætisráðherra, sem verður líklega 23. janúar.

Kjördagur í Svíþjóð er ávallt á sunnudögum og því gætu þingkosningarnar orðið 21. apríl. Það er hins vegar páskadagur sem gæti sett strik í reikninginn.  

Frétt The Local

Bein textalýsing SVT af framvindu mála í morgun

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert