Noti lygamæli á hælisleitendur

Hælisleitendur reyna oft að laumast um borð í flutningabíla í …
Hælisleitendur reyna oft að laumast um borð í flutningabíla í Calais, í von um að komast yfir til Bretlands. Mynd úr safni. AFP

Hælisleitendur sem vilja fá dvalarleyfi í Bretlandi ættu að vera látnir gangast undir próf með lygamæli. Þetta segir David Wood, fyrrverandi yfirmaður innflytjendamála.

Segir Wood hælisleitendakerfið vera misnotað í miklum mæli, ekki hvað síst af þeim sem koma til landsins í von um bættan efnahag. BBC segir að í skýrslu sem Wood vann sé bent á að nýta megi sér tæknina til að aðstoða við að greina „merki um blekkingar“.

Stutt er síðan Sajid Javid, innanríkisráðherra Bretlands, dró í efa að allir þeir hælisleitendur sem kæmu til Bretlands væru raunverulegir flóttamenn, en þeim sem hafa óskað hælis í Bretlandi hefur fjölgað undanfarna mánuði. Samkvæmt svörum frá innanríkisráðuneytinu stendur hins vegar ekki til að nýta lygamæla á hælisleitendur.

Wood var varaforstjóri bresku landamærastofnunarinnar og þar á eftir forstjóri innflytjendamála áður en hann fór á eftirlaun 2015.

Skýrsluna, sem birt var í dag, vann hann fyrir sjálfstætt starfandi hugveitu Civitas: Institute for the Study of Civil Society.

Þar segir Wood m.a. núverandi kerfi vera notað til að auðvelda efnahagslega fólksflutninga og að allt að 15.000 hælisleitendur komi til landsins árlega án þess að hafa gilda ástæðu til að koma þangað sem slíkir. Leggur hann til að ein leið til að greina raunverulega flóttamenn frá öðrum sé að nota sjálfvirka tækni til að skanna umsóknir.

Tæknin sé 90% nákvæm og taki um 20 mínútur. Skanninn veki athygli á tortryggilegum svörum þannig að þeir sem taki viðtölin við hælisleitendurna geti lagt áherslu á þau atriði.

„Þannig væri ekki hægt að sanna að umsækjandi ljúgi, en það væri hægt að vera nokkuð öruggur með þá sem segja satt,“ sagði Woods.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert