Fundu eldgamalt lík

Í Sandnesi í Rogalandi, rúmlega 76.000 íbúa bæ við vesturströnd …
Í Sandnesi í Rogalandi, rúmlega 76.000 íbúa bæ við vesturströnd Noregs, fundu iðnaðarmenn lík í yfirgefnu húsi á fimmtudag sem eftir öllum sólarmerkjum að dæma gæti hafa legið þar síðan 2010. Ljósmynd/Wikipedia.org/Snorre

Lögreglan í suðvesturumdæminu í Noregi, nánar tiltekið í bænum Sandnesi í Rogaland-fylki, á erfitt verk fyrir höndum: Hún þarf að komast að því af hverjum lík, sem iðnaðarmenn fundu í yfirgefnu húsi á fimmtudaginn, er, hvort viðkomandi hafi mætt örlögum sínum með saknæmum hætti og, hafi svo verið, hver vann verkið.

Ljóst er að þarna er á brattann að sækja en það voru iðnaðarmenn sem voru að störfum á Langgata 72 í miðbæ Sandness sem tilkynntu um líkfundinn. Húsið var notað undir kennslu á árum áður en hefur nú staðið autt frá 2010 og verið haft sem geymsluhúsnæði. Stendur nú til að gera það upp sem nýja heilsugæslu bæjarins en sveitarfélagið er eigandi hússins.

Iðnaðarmennirnir höfðu verið að störfum frá því skömmu eftir áramót og höfðu tekið til við að rífa ýmsa innviði hússins til að búa það undir nýtt hlutverk. Það var þá sem þeir fundu líkið, sem er af karlmanni og hefur að öllum líkindum verið í húsinu árum saman miðað við ástand þess og staðsetningu en norska ríkisútvarpið NRK segir að líkið hafi verið falið

117 manns á lista yfir horfna í umdæminu

Nálægt líkinu fundust skilríki manns sem er, ásamt 116 öðrum, á skrá lögreglu suðvesturumdæmisins yfir fólk sem saknað er. Á blaðamannafundi lögreglu á föstudaginn sagði Lone Wickstrøm, sviðsstjóri persónusviðs (n. personseksjon) lögreglunnar, að ekki væri hægt að slá því föstu að skilríkin tilheyrðu hinum látna en lögreglan hafi engu að síður tilkynnt aðstandendum skilríkjaeigandans um fundinn.

Wickstrøm sagði enn fremur að lögregla vildi ekki gefa upp nafn þess sem skilríkin tilheyrðu en á föstudaginn var líkið krufið og standa vonir til þess að dánarorsök liggi fyrir í vikunni og þá meðal annars hvort ætla megi að dauða mannsins hafi borið að með saknæmum hætti en um áratugur gæti þá verið liðinn frá því broti.

Dagbladet og fleiri fjölmiðlar greina frá því að lögreglan kallar nú eftir ábendingum frá almenningi. „Við biðjum um upplýsingar. Hafi fólk tekið eftir einhverju sem kalla mætti óvenjulegt í tengslum við þessa byggingu biðjum við það að hafa samband við okkur,“ hefur fjölmiðillinn eftir Wickstrøm sem segir auk þess í viðtali annars staðar á vef Dagbladet að lögreglan telji andlát mannsins hafa borið að með voveiflegum hætti af verksummerkjum að dæma en vill þó ekki tjá sig nánar um þau ummerki.

Fréttir annarra norskra fjölmiðla af málinu en vísað hefur verið í:

Stavanger Aftenblad

TV2

VG

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert