Líkja Brexit við Eyjafjallajökul

Eldgosið í Eyjafjallajökli olli röskunum á flugi víðs vegar í …
Eldgosið í Eyjafjallajökli olli röskunum á flugi víðs vegar í Evrópu. Breska stjórnarráðið telur þetta nærtækasta dæmið um áhrifin sem samningslaus útganga úr Evrópusambandinu geti valdið. mbl.is/Golli

Takist ekki að semja um útgöngu Bretlands áður en landið yfirgefur Evrópusambandið kynni að skapast neyðarástand sem breska forsætisráðuneytið líkir helst við glundroðann sem fylgdi eldgosinu í Eyjafjallajökli árið 2010.

Guardian segir þetta vera ráðleggingarnar sem stjórnarráðið veiti nú opinberum embættismönnum. Segir blaðið nú vera unnið að því í stjórnarráðinu að æfa þúsundir ríkisstarfsmanna í að veita opinberum stofnanum aðstoð, fari svo að útgangan úr ESB þann 29. mars einkennist af skipulagsleysi eða glundroða.

Áhrifin og tafirnar sem eldgosið olli á Íslandi, er talið gagnlegt dæmi um hvernig upplausnarástandið kunni að geta stigmagnast í Bretlandi í vor.

Segir Guardian starfsfólki hafa verið bent á að kynna sér dæmi um þær truflanir sem Eyjafjallajökull olli. Það eigi það að gera vegna þess að gosið olli ekki bara truflunum á Íslandi, heldur varð áhrifa þess vart um alla Evrópu, ekki hvað síst í flugiðnaðinum þar sem hundruð þúsunda urðu strandaglópar á flugvöllum eftir að flugferðum var aflýst.

Segir Guardian breska stjórnaráðið telja þetta vera nærtækasta dæmið um það hvers konar ástand ráðuneyti og opinberar stofnannir kunni að þurfa að fást við. Áhrifin af Brexit eru þó að mati stjórnarráðsins líklegri til að verða enn víðtækari. Þá er skortur á undirbúningi af hálfu stjórnvalda sagður valda verulegri óánægju meðal fjölda hátt settra opinberra starfsmanna.

„Það er þörf á undirbúningi á sambærilegu stigi og um stríð væri að ræða,“ hefur Guardian eftir einum heimildamanna sinna úr stjórnarráðinu. „Samningslaust Brexit mun hafa sambærileg áhrif. Ísland gefur okkur vísbendingar um hvað gæti gert, en Brexit verður ólíkt nokkru sem við höfum áður séð.“

Guardian segir hundruð opinberra starfsmanna hafa til þessa setið fundi um möguleg áhrif samningslausrar útgöngu þar sem m.a. sé farið yfir áhrif þess á samgöngur, viðskipti, ferðir yfir landamæri og reglugerðir. Þá eru stjórnvöld sögð vera með í vinnslu lista yfir „það versta sem geti gerst“ og er hann sagður taka stöðugum breytingum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert