Gæti verið vísað úr landi eftir Brexit

Bresk yfirvöld hófu í vikunni umfangsmikla skráningu á íbúum EES-landa …
Bresk yfirvöld hófu í vikunni umfangsmikla skráningu á íbúum EES-landa í Bretlandi, en þeir sem þar vilja vera áfram búsettir eftir að Bretar ganga úr ESB þurfa að hafa til þess dvalarleyfi. AFP

Þeir Norðmenn sem búa, vinna eða stunda nám í Bretlandi eiga á hættu að vera vísað úr landi hafi þeir ekki sótt um dvalarleyfi þegar Bretar ganga úr Evrópusambandinu í lok mars á þessu ári.

Norska ríkisútvarpið NRK ræðir við Lindu Marie Vikaune, norska konu búsetta í Bretlandi, sem hafði gert sér ferð frá Liverpool til London til að taka þátt í mótmælum við breska þinghúsið.

„Breska stjórnin er að reyna að hafa af mér réttindi mín sem borgara á Evrópska efnahagssvæðinu (EES). Það er rétturinn til að fara frjáls ferða minna innan Evrópu á grundvelli Schengen-samningsins,“ segir Vikaune sem hefur búið í Bretlandi í 18 ár. Hún vinnur sem þýðandi og býr með breskum manni.

Bresk yfirvöld hófu í vikunni umfangsmikla skráningu á íbúum EES-landa í Bretlandi. Segir NRK þetta fela í sér að þeir borgarar EES-ríkja sem hafi hugsað sér að vera búsettir áfram í Bretlandi, eða sem hafi hugsað sér að flytja þangað eftir júlí 2021 verði að sækja um dvalarleyfi. Þeir sem það geri ekki eigi á hættu að vera vísað úr landi.

NRK segir þetta eiga við um þá 20.000 Norðmenn sem nú eru búsettir í Bretlandi, en reglurnar munu taka til þeirra þriggja milljóna íbúa ESB sem nú búa í landinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert