Fékk trukk inn í stofu

Bifreiðin er stórskemmd eftir áreksturinn og húsið hugsanlega ónýtt en …
Bifreiðin er stórskemmd eftir áreksturinn og húsið hugsanlega ónýtt en það færðist um einn metra af grunninum við áreksturinn sem varð í kjölfar þess að ökumaður, sem taldi óhætt að aka vörubifreið á sumardekkjum um Finnmörku í janúar, missti stjórn á færleik sínum. Ljósmynd/Ábendinganetfang VG

„Hver árinn er nú þetta?!“ (n. „ka i hælvette e’ dette for no’!?“ eins og norska dagblaðið VG stafsetur drjúgan Finnmerkurframburðinn) spurði maður nokkur í Krampenes í sveitarfélaginu Vadsø í Finnmörku, nyrsta fylki Noregs, þegar vöruflutningabifreið á sumardekkjum ók formálalaust inn í stofu hjá honum um kvöldmatarleytið í gær og staðnæmdist tvo metra frá sófanum sem húsráðandi sat í.

Ekki var nóg með skemmdirnar sem árekstrinum fylgdu, húsið að öllum líkindum ónýtt, heldur var höggið slíkt að húsið losnaði af grunninum og færðist til um tæpan metra.

Íbúinn vildi ekki koma fram undir nafni, hvorki í fréttaflutningi VGnorska ríkisútvarpsins NRK en Gunnar Øvergaard, aðgerðastjóri lögreglunnar í Finnmörku, sagði VG að stórtjón hefði orðið hvort tveggja á húsinu og vörubifreiðinni auk þess sem hún hefði ekið niður ljósastaur á leið sinni að húsinu sem stendur við hægribeygju örskömmu eftir að hámarkshraðinn 50 kílómetrar á klukkustund tekur við af kafla þar sem 80 km hraði er leyfður.

Vanbúnar vörubifreiðar lífshættulegar

Skömmu eftir áreksturinn klöngraðist ökumaðurinn út úr húsi bifreiðarinnar og heilsaði húsráðanda en hann heilsaði einnig staðarfréttaritara NRK glaðbeittur þegar sá mætti á svæðið, augljóslega létt yfir því að engin slys urðu á fólki. Ökumaðurinn var erlendur og bifreiðin skráð utan Noregs og bætist þetta tilvik því á listann yfir fjölda tilfella í hverjum ökumenn á leið til Noregs með varning frá öðrum Evrópulöndum valda stórhættu á norskum vegum en margir þeirra eru að þreyta frumraun sína á þeim vegum og sumir, syðst úr álfu, hafa hreinlega aldrei heyrt um nagladekk eða keðjur.

Hér sést hvernig húsið hefur losnað af grunninum og færst …
Hér sést hvernig húsið hefur losnað af grunninum og færst góðan spöl við áreksturinn en bifreiðin staðnæmdist tvo metra frá húsráðanda þar sem hann sat í sófa sínum. Ljósmynd/Ábendinganetfang VG

Charlie Dan Lind, 22 ára gamall laganemi sem var á leið akandi til kærustu sinnar í Tromsø mánudaginn 8. janúar, liggur nú lífshættulega slasaður á sjúkrahúsi, í dauðadái með alvarlegan heilaskaða, eftir að vörubifreiðarstjóri frá Lettlandi, sem leið átti um Troms-fylki á hjólbörðum, sem aldrei hefðu átt að snúast á vegum þess fylkis nokkurn vetrarmánuð, missti stjórn á bifreið sinni með þeim afleiðingum að tengivagninn hreinlega straujaði Ford Focus-bifreið laganemans.

Læknar við Háskólasjúkrahúsið í Norður-Noregi, þar sem Lind liggur, segja það kraftaverk að hann sé á lífi en milta hans fór í tvennt við áreksturinn auk alvarlegra höfuðáverka. Hefur móðir hans, Ramona Lind, nú biðlað til norskra yfirvalda, og er ekki ein um þær bænir, að herða eftirlit með vörubifreiðum á norskum landamærastöðvum og stöðva akstur slíkra ökutækja sem teljast stórkostlega vanbúin til aksturs um norska vegi að vetrarlagi.

Eins og ABC Nyheter greindu frá í ítarlegri samantekt um öryggismál á norskum vegum fyrir hálfum mánuði hefur hávær umræða um vanbúnar vöruflutningabifreiðar frá öðrum Evrópuríkjum nú náð eyrum þingmanna Stórþingsins og hefur Miðflokkurinn tekið það mál upp á sína arma að landamæraeftirlit verði hert til muna auk þess sem norðurfylkjunum, Nordland, Troms og Finnmörku, verði sett eigin reglugerð um vetrarútbúnað bifreiða sem þar fara um.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert