Myrti átta og faldi líkin

McArthur myrti átta manns.
McArthur myrti átta manns. Mynd/Skjáskot af vef BBC

Landslagsarkitektinn Bruce McArthur hefur játað að hafa myrt átta manns í Kanada á árunum 2010 til 2017. McArthur, sem er 67 ára, var handtekinn í janúar í fyrra.

Líkamsleifar sjö einstaklinga fundust á landareign þar sem McArthur geymdi garðverkfærin sín en það áttunda fannst í grennd við landareignina. 

Saksóknari sagði í dómsal að fórnarlömbin hafi flest lifað á jaðri samfélagsins í Toronto og því hafi hvarf þeirra ekki vakið mikla athygli í fyrstu. Samfélag hinsegin fólks í Toronto hefur harðlega gagnrýnt lögreglu og segir að hún hafi ekki tekið málið nógu föstum tökum þegar fyrstu fórnarlambanna var saknað.

Frá leit lögreglu við heimili McArthur síðasta sumar.
Frá leit lögreglu við heimili McArthur síðasta sumar. AFP

Fórnarlömb McArthur hétu Skandaraj Navaratnam, Soroush Mahmudi, Majeed Kayhan, Kirushna Kumar Kanagaratnam, Andrew Kinsman, Selim Esen, Dean Lisowick og Abdulbasir Faizi. 

Saksóknari sagði enn fremur að McArthur hafi myndað fórnarlömb sín og tekið skart af þeim til minningar. Hann sagði að öll voðaverkin hefðu verið af kynferðislegum toga og bætti við að hann hefði sundurlimað líkin og falið þau til að reyna að koma í veg fyrir verksummerki.

Dómsuppkvaðning fer fram í næstu viku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert