Konungsfjölskyldan flutt á brott?

Elísabet Bretadrottning.
Elísabet Bretadrottning. AFP

Komi til óeirða í London í kjölfar fyrirhugaðrar útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu 29. mars hafa bresk yfirvöld dustað rykið af áætlunum frá tímum kalda stríðsins um að koma konungsfjölskyldunni úr borginni og á öruggan stað.

Fram kemur í frétt Reuters að áætlanirnar séu hluti af undirbúningi breskra stjórnvalda fyrir mögulega útgöngu Bretlands án þess að samið verði um sérstakan útgöngusamning við Evrópusambandið. Hafa stjórnvöld sagt að þau yrðu að gera ráð fyrir öllum möguleikum vegna útgöngunnar. Annað væri ekki ábyrg stjórnsýsla.

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, hefur átt í erfiðleikum með að fá í gegn útgöngusamning sem hún samdi um á síðasta ári við Evrópusambandið en neðri deild breska þingsins hafnaði með afgerandi hætti. Hún hefur síðan lýst því yfir að hún ætli að reyna að ná fram breytingum á samningnum en sambandið hefur hafnað því.

Haft er eftir Jacob Rees-Mogg, þingmanni Íhaldsflokksins og miklum stuðningsmanni útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu, að virkjun áætlana um að flytja konungsfjölskylduna á brott væri til marks um óðagot hjá embættismönnum.

Benti hann á að háttsettir aðilar konungsfjölskyldunnar hefðu verið um kyrrt í London á meðan Þjóðverjar gerðu loftárásir á borgina í síðari heimsstyrjöldinni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert